Lokakeppnin fór fram í hátíðarsal Grósku á föstudaginn fyrir þéttsetnum sal. Logi Einarsson menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra var á meðal gesta og afhenti verðlaun.
Í umsögn um verðlaunahugmyndina segir að Sagareg einfaldi gerð umsóknarskjala (dossiers) um markaðsleyfi lyfja með gervigreind og sérhæfðum hugbúnaði. Lausnin sjálfvirknivæði textaskrif, töflugerð og gæðaeftirlit, sem tryggi hraðari og áreiðanlegri umsóknir til heilbrigðisyfirvalda.
Erna Niluka Njálsdóttir og Guðrún Heimisdóttir höfnuðu í öðru sæti með Hvað nú? sem veitir syrgjendum heildstæða þjónustu sem einfaldar ferlið í kjölfar andláts ástvina. Þjónustan styður syrgjendur á erfiðum tíma, eykur skilvirkni og hjálpar þeim að komast fyrr aftur út í samfélagið. Nafnið vísar í algengu spurninguna sem vaknar við slíkar aðstæður: „Hvað nú?“

Þau hlutu eina milljón króna og einnig tuttugu klukkustunda ráðgjöf frá KPMG í aukaverðlaun.
Birgir Bragi Gunnþórsson, Einir Sturla Arinbjarnarson, Haukur Ingi Sigrúnar Jónsson og Jóhann Tómas Portal höfnuðu í þriðja sæti með SamVís.
„Samvís þróar nýja kynslóð leitarvéla fyrir vísindamenn og námsmenn með gervigreindartækni. Lausnin auðveldar aðgengi að rannsóknum og skapar brú milli vísinda og samfélags. Samvís var einnig valið sem háskólateymið sem fer fyrir Íslands hönd til Aþenu á alþjóðlega frumkvöðlakeppni,“ segir um verðlaunin.

Brynja Rún Sævarsdóttir, Anna Lilja Sigurðardóttir, Rakel Hrönn Sveinsdóttir og Björk Gunnarsdóttir með Panda hlaut verðlaunin vinsælasta teymið úr kosningu gesta og áhorfenda.
Planda hlaut þau verðlaun fyrir lausn sem auðveldar vinahópum að finna sameiginlegan tíma til að hittast.
Þá hlutu Davíð James R Berman, Þór Fjalar Hallgrímsson, Kristinn Roach Gunnarsson og Wioleta Zelek þriggja mánaða aðstöðu í Gróskuhúsinu í verðlaun. Pilot bloks hefur þróað stýrikerfi fyrir gatnalýsingu, byggt á opnum hugbúnaði sem er einfalt og hagkvæmt í rekstri.
Að lokum fékk Meniga Heiðursverðlaun Gulleggsins 2025 fyrir framúrskarandi framlag sitt til íslensks frumkvöðlastarfs. Meniga tók þátt í Gullegginu árið 2009, var meðal topp 10 en hlaut ekki verðlaunasæti. Ásgeir Ö. Ásgeirsson, Viggó Ásgeirsson og Georg Lúðvíksson stofnendur Meniga tóku við viðurkenningunni.