Erlent

Skynjar „nýja evrópska stað­festu og al­var­leika“ fyrir fundinn í París

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, lét sig ekki vanta á öryggisráðstefnuna í Munchen um helgina en í dag sækir hún óformlegan leiðtogafund í París.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, lét sig ekki vanta á öryggisráðstefnuna í Munchen um helgina en í dag sækir hún óformlegan leiðtogafund í París. AP/Matthias Schrader

Mette Frederikssen, forsætisráðherra Danmerkur, lítur stöðu öryggismála í Evrópu alvarlegum augum og segir nauðsynlegt sé að auka hernaðarstuðning við Úkraínu. Hún kveðst hlakka til að ræða ástandið í Úkraínu og öryggismál í Evrópu við lítinn hóp þjóðhöfðingja og annarra leiðtoga í París á eftir, en Frederiksen er jafnframt fulltúi Íslands á fundinum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá danska forsætisráðuneytinu en líkt og fram hefur komið boðaði Emmanuel Macron Frakklandsforseti til fundarins með skömmum fyrirvara í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er í tengslum við boðaðar friðarviðræður Bandaríkjanna við Rússa vegna Úkraínu og sterk skilaboð frá Bandaríkjastjórn til Evrópu hvað varðar öryggismál í álfunni. Utanríkisráðherrar Rússlands og Bandaríkjanna hittast á fundi í Sádi-Arabíu á morgun þar sem friðarumleitanir í Úkraínu eru á dagskrá, án þátttöku Úkraínu eða annarra Evrópuríkja.

„Við þurfum að auka hernaðarstuðning við Úkraínu, við þurfum að framleiða meira og við þurfum að gera það hraðar. Og svo verðum við að afnema hömlur á vopnanotkun Úkraínumanna svo þeir geti í raun varið sig gegn Rússum án þess að vera með aðra hönd fasta fyrir aftan bak. „Vopnahlé má ekki leiða til endurvopnunar Rússa, með tilheyrandi nýjum árásum Rússa,“ er haft eftir Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur í tilkynningunni.

„Ég hlakka til að ræða þetta allt í París og ég er ánægð með að Macron forseti hafi átt frumkvæðið að fundinum. Ég skynja nýja evrópska staðfestu, alvarleika og drifkraft sem er nauðsynlegur,“ segir Mette.

Sjá einnig: Reiðubúinn til að senda hermenn til Úkraínu

Fundurinn sem er sagður óformlegur og boðaður var með skömmum fyrirvara fer fram í Élysée-höllinni í París. Líkt og fram hefur komið verður Frederiksen fulltrúi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna á fundinum. Auk hennar og Frakklandsforseta taka þátt leiðtogar Þýskalands, Bretlands, Ítalíu, Póllands, Spánar og Hollands, auk forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, forseti framkvæmdastjórnar ESB og framkvæmdastjóri NATO.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×