Erlent

Mynd­bönd sýna flug­vélina lenda harka­lega og enda á hvolfi

Samúel Karl Ólason skrifar
Flugvélin er frá Delta Airlines í Bandaríkjunum. Þetta var fjórða stóra flugslyst Norður-Ameríku á einum mánuði.
Flugvélin er frá Delta Airlines í Bandaríkjunum. Þetta var fjórða stóra flugslyst Norður-Ameríku á einum mánuði. AP/Teresa Barbieri

Átján eru slasaðir eftir að flugvél skall harkalega í jörðina við lendingu í Toronto í Kanada í gær. Flugvélin endaði á hvolfi á flugbrautinni en slysið var fangað á öryggismyndavélar.

Alls voru áttatíu manns um borð; 76 farþegar og fjórir áhafnarmeðlimir. Enginn hinna slösuðu er í alvarlegu ástandi en upplýsingar um slasaða og ástand þeirra hafa verið á nokkru reiki, samkvæmt frétt kanadíska ríkisútvarpsins. Enginn mun þó hafa látið lífið.

Flugvélinni, sem er af gerðinni Mitsubishi CRJ-900LR, hafði verið flogið frá Mineapolis í Bandaríkjunum og varð slysið við lendingu í Toronto. Mikill vindur var á svæðinu og sömuleiðis var snjór á flugbrautinni.

Sjá einnig: Farþegaþota brot­lenti og hafnaði á hvolfi

Þegar verið var að lenda henni skall hún harkalega í jörðina, miðað við áðurnefndar upptökur og kom upp nokkur eldur. Annar vængur flugvélarinnar brotnaði af og endaði hún á hvolfi á flugbrautinni.

Hér að neðan má sjá tvö myndbönd af slysinu sem hafa verið birt á netinu.

Þó nokkur vindur hafi verið á svæðinu segir AP fréttaveitan að óljóst sé hvað hafi leitt til flugslyssins. Samskipti milli flugmanna og flugumferðarstjóra hafi verið með eðlilegum hætti.

Flugumferðarstjóri varaði við vindinum og því að flugvélin gæti hrist til í aðfluginu.

Eftir að flugvélin staðnæmdist gekk vel að ná fólki út og eru slökkviliðsmenn sagðir hafa verið mjög fljótir á vettvang.

Einn farþega tók upp meðfylgjandi myndband á leiðinni út úr flugvélinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×