Upp­gjörið: Stjarnan - Grinda­vík 62-66 | Lífs­nauð­syn­legur sigur gestanna

Siggeir Ævarsson skrifar
Gular hafa nú unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum.
Gular hafa nú unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum. Vísir/Diego

Grindavík vann gríðarlega mikilvægan sigur á Stjörnunni í Bónus deild kvenna í körfubolta þegar liðin mættust í Garðabænum. Gular eru í harðri fallbaráttu og því allir sigrar mikilvægir fyrir Grindavík.

Það hefur verið hart tekist á í báðum fyrri leikjum liðanna í vetur og leikurinn í kvöld var engin undantekning. Bæði lið í leit að mikilvægum stigum og stöðugleika en þó ekki síst gestirnir sem vermdu næst neðsta sæti deildarinnar fyrir leik.

Það var ekki fyrir miklum stöðugleika að fara í leik liðanna í kvöld. Liðin skiptust á áhlaupum í vægast sagt kaflaskiptum leik sem Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, sagði að hefði helst minnt á leik í upphafi tímabils og hefði verið „ljótur körfuboltaleikur í alla staði.“

Miðherjar liðanna, þær Denia Davis-Stewart og Isabella Ósk Sigurðardóttir, voru í aðalhlutverkum í byrjun og tókust hart á. Raunar svo hart að Isabella var fljótlega komin á bekkinn með tvær villur og Denia skömmu síðar. Þær endurtóku svo leikinn í öðrum leikhluta þegar þær nældu sér snemma í þriðju villurnar.

Sóknarleikur beggja liða var ekki góður framan af leik en bæði lið voru að skjóta 25 prósent utan af velli um miðjan annan leikhluta. Grindvíkingar kláruðu þann leikhluta þó með miklum krafti og leiddu með átta stigum í hálfleik, staðan 29-37.

Stjörnukonur mættu miklu beittari til leiks í seinni hálfleik og gengu vel á lagið þegar Isabella fékk sína fjórðu villu. Þær virtust ætla að ganga frá leiknum með Diljá Ögn Lárusdóttur fremsta í flokki sem skoraði níu stig í leikhlutanum en Grindvíkingar bitu frá sér og því munaði aðeins tveimur stigum fyrir lokaátökin, staðan 51-49.

Grindvíkingar tóku svo næsta áhlaup og snéru leiknum aftur algjörlega við í fjórða leikhluta og voru komnar tíu stigum yfir þegar mest var. Stjörnukonur gáfust þó ekki upp frekar en fyrri daginn og lokamínúturnar urðu æsispennandi.

Ana Clara Paz setti þrist, nældi svo í tvö víti þegar Hulda braut óíþróttamannslega á henni og skoraði svo tvö til viðbótar og munurinn kominn niður í fjögur stig, 62-66, þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af leiknum.

Nær komust þær þó ekki en það kom risastórt augnablik undir lokin þar sem Isabella blokkaði Stixx með látum undir körfunni. Alvöru ákvörðun þar hjá Isabellu sem var að spila á sinni fjórðu villu, en hún spilaði lokaleikhlutann allan reyndar eins og hún hefði ekki hugmynd um það.

Grindvíkingar sigldu þessum sveiflukennda leik heim að lokum, lokatölur 62-66.

Atvik leiksins

Þegar seinni hálfleikur var varla kominn af stað fékk Isabella Ósk sína fjórðu villu og settist á bekkinn, sem riðlaði leik Grindavíkur mjög á báðum endum. Liðið skoraði aðeins tólf stig í leikhlutanum og tapaði honum með tíu stigum.

Hún átti svo annað atvik undir lokin sem hefur verið nefnt hér að framan.

Stjörnur og skúrkar

Diljá Ögn Lárusdóttir var frábær í þriðja leikhluta fyrir Stjörnuna þegar hún tvöfaldaði stigafjölda sinn, fór úr níu stigum í 18. Hún skoraði körfur í öllum regnbogans litum og varnarmenn Grindavíkur áttu engin svör. En svo skoraði hún ekki eitt einasta stig í viðbót í leiknum.

Denia Davis- Stewart átti ekki gott kvöld. Sópaði að sér villum, þar af tveimur sóknarvillum, og gat aðeins spilað 22 mínútur en henni til happs var miðherji Grindavíkur, Isabella Ósk, einnig í villuvandræðum, svo að fjarvera hennar í teignum var ekki jafn áberandi.

Hjá Grindavík voru þær Mariana Duran og Daisha Bradford stigahæstar með 17 stig hvor en hvorug þeirra spilaði sinn besta leik í kvöld og Bradford tapaði sjö boltum og Duran fimm.

Dómararnir

Davíð Kristján Hreiðarsson, Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson og Bjarni Rúnar Lárusson. Ég held að fæst orð beri hvað minnsta ábyrgð hér. Töluvert ósamræmi í dómum í kvöld og enginn vissi hvar línan lá sem pirraði bæði leikmenn og þjálfara.

Stemming og umgjörð

Hver ákvað eiginlega að hafa þennan leik klukkan 18:15 á virkum degi? Mætingin var í takt við tímasetninguna, fjölmargir sem vildu sjá þennan leik eflaust einfaldlega fastir í síðdegistraffíkinni og þeir sem á annað borð mættu vörðu megnið af orkunni í að kvarta yfir dómgæslunni í staðinn fyrir að hvetja sitt lið áfram.

Kom svo reyndar í ljós að það var 12. flokks leikur í húsinu klukkan 20:30 en ég set spurningamerki við að leikur í Bónus-deild kvenna sé færður á svona óhentugan tíma af þeim sökum.

Viðtöl

Ólafur Jónas: „Ég ætla að vona að allir aðilar sem voru við þennan leik horfi nú á hann aftur“

Ólafur fer yfir málin með sínum konum í fyrri viðureign þeirra við Grindavík í deildinni í veturVísir / Pawel Cieslikiewicz

Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Stjörnunnar, talaði um fyrir leik að hann reiknaði með að það yrði barningur í kvöld en niðurstaðan var eitthvað miklu meira en bara barningur og hann tók undir orð Þorleifs Ólafssonar, þjálfara Grindavíkur, um gæði leiksins.

„Þetta var ljótt maður, ég er sammála því. Við vorum rosalega lélegar sóknarlega fannst mér. Það er ansi margt sem mig langar að segja sem ég ætla ekki að segja í þessu viðtali, það er bara þannig.“

Stjarnan náði nokkrum góðum áhlaupum í leiknum og virtist vera að ná undirtökunum og Ólafur var ekki sáttur með að hans konur næðu aldrei að stíga skrefið til fulls og slökkva í vonum gestanna. Þá sendi hann líka skilaboð til allra þeirra sem komu að leiknum í kvöld.

„Hundrað prósent. Ég skil ekki hvað við komum flatar út í fyrri hálfleik miðað við hvað þetta var mikilvægur leikur fyrir okkur til að setja tóninn. Vorum að vinna góðan sigur fyrir norðan. Við erum flatar í fyrri hálfleik finnst mér. Allt svo dautt og einhver svona bókasafnsstemming hérna. Aðeins meira „fight“ í seinni hálfleik og ég er ánægður með hvernig við komum til leiks þar en ég ætla að vona að allir aðilar sem voru við þennan leik horfi nú á hann aftur.“

Stjarnan endar í neðri hluta deildarinnar eftir skiptingu og nú þarf bara að gíra sig upp fyrir lokasprettinn og finna jafnvægið.

„Nú eru bara hvað, fjórir leikir eftir af tímabilinu og við þurfum heldur betur að girða okkur í brók og fara að ná í einhver tvö stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira