Innlent

Von­góð um að nýr meiri­hluti verði myndaður fyrir helgi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Dóra Björt er oddviti Pírata í borgarmálunum.
Dóra Björt er oddviti Pírata í borgarmálunum. Vísir/Arnar

Oddviti Pírata segist vongóður um að meirihlutaviðræðum síðustu daga verði lokið í þessari viku. Stólar og embætti hafi enn lítið verið rædd.

Meirihlutaviðræður Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalista, Flokks fólksins og Vinstri grænna hafa staðið yfir í tæpa viku, en í gær var greint frá því að drög að málefnasamningi milli flokkanna lægi fyrir.

„Við erum komin nokkuð langt, erum að vinna texta sáttmálans og erum búin að snerta á flestöllum málefnum. Þetta lítur bara vel út hjá okkur og við vonum bara að við náum til lands, fljótt og örugglega,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata.

Erum við þá að tala um í þessari viku?

„Ég held það, ég vona það. Það lítur þannig út að það gæti náðst.“

Gott að skapa ró um stjórn borgarinnar

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar og forseti bæjarstjórnar sagði í gær að brýnt væri að niðurstaða næðist í viðræðurnar í þessari viku.

„Það er auðvitað gott að það skapist ró um stjórn borgarinnar, fyrirsjáanleiki um það hvernig störfum verður háttað, hver mun gegna hvaða hlutverki og hvað við erum að fara að gera. Það er auðvitað það sem við erum að ræða hér,“ segir Dóra. 

Eðlilegt sé að fólk vilji fá áherslur nýs meirihluta fram sem fyrst.

„En eins og ég hef sagt. Það er mikilvægt að vanda sig, en auðvitað gera þetta hratt og örugglega.“

Fjölda mála frestað á bjöllufundi

Svokallaður bjöllufundur fór fram í borgarstjórn í dag, þar sem öllum málum var frestað.

„Það er ekkert óeðlilegt við það. Við erum að vinna að nýrri samstarfsyfirlýsingu og það er auðvitað eitthvað sem er gott að liggi fyrir áður en lengra er haldið.“

Enn hafi lítið verið rætt um stóla og embætti.

„Vegna þess að við höfum verið að tala um verkefnin og við viljum klára það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×