Erlent

For­maður sænska Mið­flokksins hættir

Atli Ísleifsson skrifar
Muharrem Demirok tók sæti á sænska þinginu árið 2022 og tók við formennsku í Miðflokknum snemma árs 2023.
Muharrem Demirok tók sæti á sænska þinginu árið 2022 og tók við formennsku í Miðflokknum snemma árs 2023. Getty

Muharrem Demirok hefur ákveðið að segja af sér sem formaður sænska Miðflokksins. Hann hefur gegnt formennsku í flokknum í tvö ár.

Demirok greindi frá afsögn sinni á fréttamannafundi í morgun. Staða hans innan flokksins hefur mikið verið til umræðu síðustu misserin þar sem klofnings hefur gætt og þannig hefur ungliðahreyfing flokksins krafist afsagnar hans.

„Til að Miðflokkurinn vinni kosningarnar 2026 er þörf á sameinuðum flokki,“ sagði Demirok í morgun.

Demirok tók við formennsku í flokknum af Annie Lööf í kjölfar þingkosninganna 2022 þar sem flokkurinn hlaut 6,7 prósent atkvæða. Flokkurinn hefur hins vegar mælst með innan við fjögur prósenta fylgi í skoðanakönnunum að undanförnu.

Demirok greindi frá því að hann hafi greint flokksstjórn frá ákvörðun sinni í morgun. Hann sagði að til standi að boða til aukaflokksþings á næstunni þar sem nýr leiðtogi verður kjörinn. Demirok muni þó gegna formennsku áfram þar til að nýr formaður tekur við.

Hinn 48 ára Muharrem Demirok tók sæti á sænska þinginu 2022 og tók svo við formennsku í flokknum í febrúar 2023.

Miðflokkurinn er nú í stjórnarandstöðu en á árunum 2019 til 2022 varði flokkurinn minnihlutastjórn Jafnaðarmanna og Græningja vantrausti. Á árunum 2006 til 2014 var flokkurinn þátttakandi í borgaralegri ríkisstjórn undir forystu Moderaterna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×