Handbolti

„Grimmd og gleði“ skilaði sann­færandi sigri

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Sara var valin mikilvægasti leikmaður úrslitahelgarinnar.
Sara var valin mikilvægasti leikmaður úrslitahelgarinnar. vísir / hulda margrét

„Svo sætt. Svo glöð. Svo ánægð“ sagði mikilvægasti leikmaður úrslitahelgarinnar og bikarmeistarinn Sara Sif Helgadóttir, fljótlega eftir sigur Hauka gegn Fram í úrslitaleik. Hún var skiljanlega sátt með að fá aðeins tuttugu mörk á sig gegn „geggjuðu sóknarliði“ Fram.

Sara varði virkilega vel í leiknum og hafði ekki tölu á því eftirá hvað þetta voru mörg skot sem hún tók (þau voru tólf).

„Nei þetta snýst meira um að vera til staðar fyrir stelpurnar og taka líka stúkuna með í stemninguna, því það er okkar næsti leikmaður. Hver er að telja skilurðu?“ spurði Sara létt í bragði.

Titillinn var tekinn með inn í klefa. vísir / hulda margrét

Haukar byrjuðu sterkt, héldu fimm marka forystu nánast allan leikinn og sigurinn varð sannfærandi.

„Það var bara grimmd og gleði. Byrjuðum rosa sterkt og ætluðum að koma grimmar inn í vörnina, það gekk rosa vel. Þær skora bara tuttugu mörk í dag, þetta frábæra Framlið, geggjað sóknarlið. Geggjuð vörn í dag hjá okkur.“

Ljóst er að titlinum verður vel fagnað enda í fyrsta sinn í átján ár sem Haukakonur hampa honum. Hvernig á að fagna í kvöld?

„Það verður eitthvað, ég veit það ekki, segir maður ekki bara bíp við því?“ sagði Sara að lokum og brosti út í annað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×