Erlent

Tveir látnir í Mann­heim

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Árásarmaðurinn er fertugur karlmaður frá Þýskalandi.
Árásarmaðurinn er fertugur karlmaður frá Þýskalandi. EPA-EFE/RONALD WITTEK

Að minnsta kosti tveir eru látnir eftir að bíl var ekið á hóp fólks í Mannheim í Þýskalandi í morgun. Tíu manns voru fluttir á sjúkrahús, þar af fimm alvarlega slasaðir.

Margmenni var á torginu Paradeplatz í Mannheim þegar fertugur karlmaður keyrði svartan bíl inn í mannfjöldann rétt eftir hádegi á staðartíma. 

Hann var handtekinn á staðnum en dvelur núna samkvæmt umfjöllun BBC á sjúkrahúsi. Maðurinn, sem er Þjóðverji, er talinn hafa verið einn að verki. Lögregla telur að engin pólitísk ástæða hafi verið fyrir árásinni.

Tíu manns voru fluttir á sjúkrahús eftir árásina, þar af voru fimm alvarlega slasaðir. Áður var talið að mun fleiri væru slasaðir.

Mikill mannskari var í miðborginni þar sem í dag, mánudag, er hápunktur kjötkveðjuhátíðar í Þýskalandi.  Fjölmenn skrúðganga var haldin í borginni í gær.

Ekki er liðin mánuður síðan mæðgur létust eftir að maður keyrði inn í hóp mótmælenda í München í Þýskalandi.

Fréttin var uppfærð klukkan 20:33.


Tengdar fréttir

Einn látinn í Mannheim eftir að bíl var ekið á fólk

Einn er látinn og nokkrir eru slasaðir eftir að bíl var ekið á hóp fólks í miðborg Mannheim á Paradeplatz. Einn hefur verið handtekinn á vettvangi. Þetta staðfestir lögreglan í borginni. Áður hafði verið greint frá því að lögregluyfirvöld hefðu mikinn viðbúnað á svæðinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×