Upp­gjörið: ÍR-KR 97-96 | Collin Pryor tryggði ÍR-ingum sigur á KR

Siggeir Ævarsson skrifar
ÍR-inga fögnuðu gríðarlega í leikslok
ÍR-inga fögnuðu gríðarlega í leikslok Vísir/Hulda Margrét

Það var sannkallaður Reykjavíkurstórslagur í Skógarselinu í kvöld þegar KR-ingar sóttu ÍR heim en bæði lið eru í harði baráttu um síðustu sætin í úrslitakeppninni, eins og reyndar svo að segja öll liðin í 5. – 10. sæti í deildinni.

ÍR-ingar áttu þó örlítið meiri hagsmuna að gæta í kvöld enda í 10. sætinu og hófu leikinn af miklum krafti og komust í 7-2. KR-ingar voru þó fljótir að rétta sinn leik af og voru mun meira sannfærandi í sínum aðgerðum eftir því sem leið á leikhlutann og leiddu að honum loknum 23-31.

Þorvaldur Orri treður með látumVísir/Hulda Margrét

Annar leikhluti einkenndist svo af miklum barningi sem hentar ÍR sennilega aðeins betur en KR en gestirnir skoruðu aðeins 13 stig í leikhlutanum og voru heimamenn því komnir með fjögurra stiga forskot í hálfleik, 48-44. Þar af skoraði Linards Jaunzems 20 af 44 stigum KR.

Leikurinn var meira og minna í járnum eftir þetta þar til ÍR-ingar náðu upp átta stig forskoti nánast í einni bunu í fjórða leikhluta en KR-ingar voru þó ekki á þeim buxunum að gefast upp og minnkuðu muninn og komust svo þremur stigum yfir, 88-91, þegar sléttar þrjár mínútur voru á klukkunni.

Jacob Falko var öflugur í kvöld að vandaVísir/Hulda Margrét

Baráttan hélt áfram allt til síðasta blóðdropa eða þar umbil og það var boðið upp á ótrúlegar senur og dramatík í lokin en Collin Pryor tryggði ÍR eins stigs sigur með körfu eftir sóknarfrákast þar sem Kavas hafði klikkað úr víti.

KR fékk tvö góð færi til að taka sigurinn en brenndi af báðum skotum. Heppnin mögulega með ÍR-ingum sem tóku stóra sénsa í vörninni.

ÍR jafnar því KR að stigum í baráttunni um síðasta sætið í úrslitakeppninni og ljóst að síðustu tvær umferðirnar verða æsispennandi.

Atvik leiksins

Undir lok leiksins komust ÍR tvisvar á vítalínuna, settu fyrra, klikkuðu úr seinna, tóku sóknarfráköst og skoruðu. Þessi atvik kostuðu KR í raun leikinn þegar upp var staðið og þá sérstaklega seinna atvikið sem leiddi til sigurkörfu Collin Pryour. Ef KR-ingar hefðu bara stigið betur út hefðu þeir sennilega náð að sigla þessu heim.

Stjörnur og skúrkar

Hetja leiksins er Collin Pryor sem kom, sá og sigraði, eftir að hafa verið nánast allan leikinn á bekknum. Collin brenndi ekki af skoti í kvöld, og endaði með níu stig og jafnframt tvö mikilvægustu stig leiksins.

Matej Kavas var stigahæstur ÍR-inga í kvöldVísir/Hulda Margrét

Matej Kavas, Hákon Örn Hjálmarsson og Jacob Falko voru allir frábærir sóknarlega hjá ÍR í kvöld en þeir skoruðu 24, 21 og 20 stig en Hákon og Kavas settu báðir fjóra þrista í sjö tilraunum.

Nimrod Hilliard var lengi í gangVísir/Hulda Margrét

Hjá KR var Linards Jaunzems algjör yfirburða maður með 35 stig. Nimrod Hilliard steig upp í lokin og virtist ætla að loka leiknum en Collin Pryor kom í veg fyrir það. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson skilað einnig mjög þéttum tölum, 23 stigum, sjö fráköstum og átta stoðsendingum.

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, einnig þekktur sem Tóti Túrbó, fær hér óblíðar móttökurVísir/Hulda Margrét

Dómararnir

Kristinn Óskarsson, Jakob Árni Ísleifsson og Guðmundur Ragnar Björnsson dæmdu leikinn í kvöld og komust bara þokkalega frá þessu krefjandi verkefni.

Stemming og umgjörð

Það var frábær stemming í Skógarselinu í kvöld. Stúkan þéttsetin og mikil læti. Þá var umgjörðin líka upp á tíu en það má hrósa nýliðum ÍR-inga alveg sérstaklega fyrir afar vandaða og fagmannlega umgjörð í kringum heimaleiki sína í vetur.

Collin Pryor fær blíðar móttökur í leikslokVísir/Hulda Margrét

Viðtöl



Jakob: „Mér fannst við bara gefa þeim leikinn“

Jakob var hundfúll í leikslokVísir/Hulda Margrét

Jakob Sigurðsson, þjálfari KR, var virkilega ósáttur með niðurstöðuna í kvöld og fannst hans menn einfaldlega hafa fært ÍR-ingum sigurinn á silfurfati.

„Við vorum á eftir þeim stóran hluta leiksins en við vorum með þá í lokin og mér fannst við bara gefa þeim leikinn.“

KR-ingar fengu tvö galopin skot í lokin til að taka sigurinn en Jakob sagði að leikurinn hefði tapast áður en þau skot komu.

„Það voru ekki skotin. Það eru varnarfráköst í vítum, tvisvar í röð. Þannig töpum við.“

KR-ingar eiga enn góðan séns á sæti í úrslitakeppninni en Jakob viðurkenndi að hann væri ekki alveg kominn með hugann á næstu leiki.

„Þetta er ennþá í okkar höndum að vinna okkar leiki. Mögulega fáum við smá hjálp frá Hetti, ég veit það ekki. En bara mjög fúlt, ég er ekki alveg byrjaður að hugsa það akkúrat núna.“

Linards Jaunzems var óstöðvandi á löngum köflumVísir/Hulda Margrét

Sóknarlega var Linards Jaunzems frábær í kvöld og Jakob var sáttur við margt í leik sinna manna. En lokamínúturnar sátu í honum.

„Hann var mjög góður, allan leikinn. Frammistaðan hjá liðinu bara allt í lagi. Ég er þokkalegur sáttur miðað við hvernig gekk hérna í seinni hálfleik. Við vorum í vandræðum og vorum við það að missa leikinn of langt frá okkur. En menn héldu haus og einbeitingu og stigu upp þegar á þurfti að halda og náðu tökum á leiknum. Ég er ekkert fúll yfir frammistöðunni í heildina, bara óánægður með lokin.“

Þjálfarar reyna oft að taka jákvæða punkta út úr tapleikjum og Jakob taldi nokkra jákvæða punkta upp en svekkelsið skyggði á þá.

„Þú segir það kannski en mér finnst við mun betra lið en ÍR. Við hefðum mögulega tryggt okkur inn í úrslitakeppnina með sigri. Svekkjandi að hafa tapað þessu á þennan hátt. Að ná ekki að klára varnir, stíga út og taka fráköst og þannig litlir hlutir.“

Hákon: „Við erum ekkert að leggjast niður og grenja þegar við lendum smá undir.“

Hákon Örn Hjálmarsson var næst stigahæstur ÍR-inga í kvöldVísir/Hulda Margrét

Stuðningsmenn ÍR-inga fögnuðu gríðarlega í leikslok, það var engu líkara en liðið hefði verið að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni með sigrinum. Hákon Örn Hjálmarsson, fyrirliði ÍR, glotti þegar hann var spurður um fögnuðinn í stúkunni.

„Við erum ekki búnir að því, við þurfum ennþá að klára næstu tvo leiki, en við erum komnir góða leið með að klára þetta.“

Leikurinn í kvöld var leikinn nokkuð fast sem hentar ÍR-ingum ágætlega, þá sérstaklega ákveðnum leikmönnum.

„Sérstaklega þegar við erum með ákveðna leikmenn inn á. Síðustu tvær þrjár mínúturnar erum við með frekar stóra og sterka gaura inn á sem einmitt geta það.“

Síðustu tveir tapleikir ÍR hefðu hæglega getað fallið þeirra megin en heppnin var ekki með þeim í liði þá. Hákon sagði að hann hefði ekki haft neinar áhyggjur af því að þriðji leikurinn væri að spilast á sama hátt.

„Alls ekki. Við vorum undir með fjórum eða fimm stigum þegar það voru tvær mínútur eftir og vorum á leiðinni á vítalínuna. Ég tók liðið saman og sagði: „Þetta eru bara tveggja körfu leikur. Við þurfum bara einu körfu, eitt stopp, eina körfu og þá erum við komnir yfir. Við höfum alveg snúið leikjum við oft í vetur. Við erum ekkert að leggjast niður og grenja þegar við lendum smá undir.“

ÍR-ingar eiga magnaða vítamínsprautu á bekknum í Björgvini Hafþóri Ríkharðssyni en á átta mínútum stal hann tveimur boltum, reif niður fjögur sóknarfráköst og var með hendur í nánast öllum sendingarlínum.

„Hann er magnaður. Hann kemur með orku og eiginlega sem ekki margir á Íslandi hafa inn í leikinn. Ég held ég hafi aldrei séð mann stela bolta úr innkasti í byrjun leikhluta. Magnaður!“

Hákon og Björgvin fagna í leikslokVísir/Hulda Margrét

Síðustu tveir leikirnir verða ekki auðveldir að mati Hákons.

„Við vorum í þeirri stöðu fyrir tveimur árum. Við fórum austur á Egilsstaði, þeir þurftu að vinna okkur til að komast í úrslitakeppnina og við komum í veg fyrir það. Ég býst við að þeir séu með nákvæmlega sama hugarfar þannig að við þurfum alveg að gíra okkur jafn mikið í þann leik og þegar við spiluðum við Íslandsmeistarana í Valsheimilinu í síðustu viku.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira