Fótbolti

Þórir Jóhann lagði upp í súru tapi gegn AC Milan

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þórir Jóhann lagði upp sitt annað mark í Serie A á leiktíðinni í kvöld.
Þórir Jóhann lagði upp sitt annað mark í Serie A á leiktíðinni í kvöld. Andrea Martini/Getty Images

Lecce missti niður 2-0 forystu gegn AC Milan í Serie A, efstu deild karla í knattspyrnu á Ítalíu. Lokatölur 2-3 og Mílanó-liðið heldur í von um Meistaradeildarsæti á meðan Lecce er í bullandi fallbaráttu.

Eftir að hafa ekki fengið nein tækifæri framan af leiktíð hefur Þórir Jóhann verið að fá fleiri tækifæri undanfarið og byrjað nær alla leiki ársins. Þar var engin breyting á þegar Lecce tók á móti stóriliði AC Milan í kvöld.

Hvað leik kvöldsins varðar þá var mark dæmt af gestunum frá Mílanó á fyrstu mínútu leiksins og á þeirri 7. tók Lecce forystuna. Svartfellingurinn Nikola Krstović með markið en íslenski miðjumaðurinn Þórir Jóhann Helgason með stoðsendinguna.

Aftur tókst gestunum að koma boltanum í netið en aftur var markið dæmt af og staðan 1-0 í hálfleik. Krstović kom Lecce í 2-0 þegar rétt tæp klukkustund var liðin. 

Eftir það vöknuðu gestirnir loksins. Á 68. mínútu var staðan orðin 2-1 eftir sjálfsmark heimamanna. Aðeins fimm mínútum síðar var vítaspyrna dæmd og Christian Pulisic jafnaði metin.

Skömmu síðar var Þórir Jóhann tekinn af velli og Pulisic skoraði sigurmark leiksins á 81. mínútu eftir undirbúning Rafael Leão. Ekki urðu mörkin fleiri og lokatölur 2-3 á Stadio Via del Mare-vellinum.

AC Milan er í 8. sæti með 44 stig , átta minna en Juventus sem situr í 4. sætinu. Lecce er með 25 stig í 16. sæti, þremur fyrir ofan fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×