Grindavík vann virkilega góðan sigur á Njarðvík í síðustu umferð Bónus-deildar karla í körfubolta. Þegar Ólafur ræddi við Körfuboltakvöld gat hann ekki hamið sig og skaut á Sævar Sævarsson, annan af sérfræðingum kvöldsins, og var almennt hrókur alls fagnaðar.
„Það er geggjað, fá okkur að éta og bara njóta þess. Geggjaður liðssigur og ógeðslega gaman,“ sagði Ólafur aðspurður hvernig tilfinningin væri.
Það verður seint sagt að viðtalið hafi gengið snurðulaust fyrir sig en Ólafur heyrði illa hvað Körfuboltakvöldsmenn sögðu enda um hefðbundið myndsímtal að ræða og ekki mikið um kyrrð né ró í búningsklefa sigurliðsins.
Viðtalið má sjá hér að neðan en þar ræðir Ólafur meiðslin sem hann varð fyrir í leiknum og adrenalínið sem hélt honum gangandi. Þá sýndi hann matinn sem boðið var upp á eftir leik. Þá sagði hann stemmninguna í klefanum hundleiðinlega og að ekki væri hægt að sýna frá henni þar sem menn væru einfaldlega á leiðinni í sturtu.