Fótbolti

Á­fall fyrir Gísla Gotta sem meiddist í öxl

Sindri Sverrisson skrifar
Gísli Gottskálk Þórðarson gæti þurft að verja mun meiri tíma í æfingasalnum en úti á fótboltavelli næstu mánuðina.
Gísli Gottskálk Þórðarson gæti þurft að verja mun meiri tíma í æfingasalnum en úti á fótboltavelli næstu mánuðina. Mynd: Lech Poznan

Knattspyrnumaðurinn Gísli Gottskálk Þórðarson gæti neyðst til að halda sig frá keppni næstu 4-5 mánuðina eftir að hafa meiðst í öxl á æfingu.

Niels Frederiksen, hinn danski þjálfari Lech Poznan, greindi frá því um helgina að Gísli yrði ekki með pólska liðinu á næstunni vegna meiðsla en að óvíst væri hve alvarleg þau væru.

Fótbolti.net segir að talað sé um að Gísli verði frá keppni næstu 4-5 mánuðina sem myndi þýða að hans fyrstu leiktíð í atvinnumennsku sé lokið. Gísli var seldur til Lech Poznan frá Víkingi í janúar og hefur hann spilað fimm leiki í pólsku úrvalsdeildinni.

Ljóst er að Gísli þarf að fara í aðgerð og eftir hana verður hægt að segja meira til um það hve langan tíma bataferlið gæti tekið.

Hans fyrrverandi lærifaðir hjá Víkingi, Arnar Gunnlaugsson, velur sinn fyrsta landsliðshóp í vikunni og má ætla að Gísli Gottskálk hafi verið inni í myndinni hjá honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×