Fótbolti

Real Madríd jafnaði topp­lið Barcelona að stigum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vinícius Júnior mætti í skotskónum.
Vinícius Júnior mætti í skotskónum. EPA-EFE/Mariscal

Real Madríd vann torsóttan 2-1 sigur á Rayo Vallecano í La Liga, efstu deild karla í knattspyrnu á Spáni. Með sigrinum hefur Real jafnað Barcelona að stigum á toppi deildarinnar en Barcelona átti að spila í gær.

Leik Barcelona og Osasuna var frestað um óákveðinn tíma eftir að liðslæknir liðsins lést óvænt í gær, laugardag.

Þar sem Barcelona hafði því ekki leikið í 28. umferð La Liga gat Real jafnað toppliðið og erkifjendur sína að stigum með sigri í dag.

Það tókst þökk sé mörkum stórstjarnanna Kylian Mbappé og Vinícius Júnior með fjögurra mínútna millibili í fyrri hálfleik. Gestirnir minnkuðu muninn fyrir lok fyrri hálfleiks en þar sem ekkert var skorað í síðari hálfleik vann Real 2-1 sigur.

Real Madríd varð hins vegar fyrir áfalli undir lok leiks þegar Jude Bellingham fór af velli eftir að verða fyrir hnjaski. Ekki er vitað hvort um alvarleg meiðsli sé að ræða að svo stöddu.

Bellingham virtist nokkuð þjakaður.EPA-EFE/Mariscal

Fyrr í dag hafði Atlético Madríd tapað nokkuð óvænt 2-1 fyrir Getafe. Það þýðir að Atlético er áfram með 56 stig á meðan toppliðin tvö eru með stigi meira. Barcelona á svo leik til góða en enn er óvíst hvenær leikur Börsunga gegn Osasuna fer fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×