Man United og Arsenal gerðu jafntefli í kaflaskiptum leik. Úrslitin þýða að það er aðeins tímaspursmál hvenær Liverpool verður Englandsmeistari en Skytturnar hans Arteta voru í raun eina liðið sem gat náð lærisveinum Arne Slot.
„Við reyndum ekki á markvörðinn þegar við höfðum yfirburði á vellinum í fyrri hálfleik. Við komumst í frábærar stöður en náðum ekki skoti eða þá að síðasta sendingin klikkaði. Við nýttum ekki yfirburði okkar, flýttum okkur of mikið og fórum síðan að tapa einvígum. Á endanum hefðum við getað tapað leiknum,“ sagði Arteta í viðtali eftir leik.
„Stundum kemur fyrir að það vantar. Sendingin þarf að koma frá réttum manni, á réttan hátt og vera á réttan mann til að skjóta,“ sagði Arteta um vandræði sinna manna fyrir framan markið.
„Hvernig við fengum á okkur færi á ákveðnum augnablikum var heldur ekki boðlegt. Þeir búa yfir of miklum gæðum, velja oftast nær rétta leikmanninn og venjulega endar það með marki.“
„Við opnuðum á möguleikann til að tapa leiknum. Það var ekki möguleiki að við myndum tapa en svo opnuðum við hliðið sjálfir. Ég mun ávallt verja leikmenn mína öllum stundum en á þessum augnablikum verðum við að gera betur,“ sagði Arteta að lokum.