Enski boltinn

Arteta gekk út úr við­tali

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mikel Arteta hafði lítinn húmor fyrir spurningum fréttamanns Sky Sports eftir leik Manchester United og Arsenal.
Mikel Arteta hafði lítinn húmor fyrir spurningum fréttamanns Sky Sports eftir leik Manchester United og Arsenal. afp/Paul ELLIS

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, var ekki í neinu sólskinsskapi eftir jafnteflið við Manchester United, 1-1, í gær. Hann kláraði til að mynda ekki viðtal við Sky Sports.

Eftir jafnteflið við United á Old Trafford í gær er Arsenal fimmtán stigum á eftir toppliði Liverpool. Skytturnar eiga leik til góða en staða þeirra í titilbaráttunni er ansi snúin.

Fréttamaður Sky Sports, Patrick Davison, ræddi við Arteta eftir leikinn í gær. Spánverjinn var nokkuð stuttorður í svörum og virtist á endanum fá nóg þegar Davison spurði hann út í stöðuna í toppbaráttunni.

„Ég verð að spyrja þig um titilbaráttuna því þetta eru fimmtán stig núna. Er það of mikið?“ spurði Davison Arteta.

„Nei, takk,“ sagði Arteta og gekk svo í burtu.

Arsenal mætir PSV Eindhoven í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á miðvikudaginn. Skytturnar eru svo gott sem komnar áfram eftir að hafa unnið fyrri leikinn í Eindhoven, 1-7.

Næsti deildarleikur Arsenal er gegn Chelsea á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×