Fótbolti

Gætu fengið 25 ára fangelsis­dóm vegna dauða Maradona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Maradona með heimsbikarinn sem hann vann nánast upp á eigin spýtur með fimm mörkum og fimm stoðsendingum á HM í Mexíkó 1986.
Diego Maradona með heimsbikarinn sem hann vann nánast upp á eigin spýtur með fimm mörkum og fimm stoðsendingum á HM í Mexíkó 1986. Getty/Paul Bereswill

Sjö læknar eða hjúkrunarkonur koma loksins fyrir rétt á morgun þar sem dómsmál gegn þeim verður tekið fyrir.

Ástæðan er mögulega þátttaka þeirra í dauða knattspyrnugoðsins Diego Armando Maradona.

Málið átti fyrst að koma fyrir dóm 4. júní síðastliðinn en hefur verið frestað tvisvar sinnum. Ef eitthvað af þessu fólki verður dæmt sek gæti það fengið langan fangelsisdóm.

Maradona lést 25. nóvember 2020 rétt tæpum mánuði eftir að hann hélt upp á sextugsafmæli sitt.

Maradona fór fyrst inn á sjúkrahús 2. nóvember og gekk síðan undir heilaaðgerð daginn eftir. Aðgerðin gekk vel og hann var útskrifaður af sjúkrahúsinu níu dögunum síðar.

Maradona var síðan í umsjón lækna og hjúkrunarfólks næstu tvær vikurnar. Hann fékk hjartaáfall og lést í svefni 22 dögum eftir aðgerðina.

Í maí 2021 var fyrrnefnt fólk ákært fyrir að eiga þátt í dauða Maradona með því að hugsa ekki almennilega um hann. Þau eiga á hættu að vera dæmd í átta til 25 ára fangelsi. Sökin er glæpsamlegt gáleysi og morð.

Maradona er einn besti knattspyrnumaður sögunnar og í guðatölu bæði í Argentínu og í Napoli á Ítalíu þar sem hann leiddi lið borgarinnar til margra titla á níunda áratugnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×