Fótbolti

Róm­verjar misstu mann af velli á elleftu mínútu og eru úr leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nico Williams skoraði tvö mörk fyrir Athletic Bilbao í kvöld og spænska liðið fór áfram í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar.
Nico Williams skoraði tvö mörk fyrir Athletic Bilbao í kvöld og spænska liðið fór áfram í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar. AP/Miguel Oses

Fjögur lið eru komin áfram í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar eftir að leikjum í fyrri leikjahópi kvöldsins er lokið.

Í Evrópudeildinni komust áfram þýska liðið Eintracht Frankfurt, spænska liðið Athletic Bilbao, norska liðið Bodö/Glimt og ítalska liðið Lazio en fjögur lið bætast svo í hópinn seinna í kvöld.

Þýska liðið Eintracht Frankfurt vann 4-1 sigur á hollenska liðinu Ajax og þar með 6-2 samanlagt. Jean Bahoya og Mario Götze komu Frankfurt í 2-0 í fyrri hálfleik og Hugo Ekitike skoraði þriðja markið í þeim seinni. Götze bætti síðan við sínu öðru marki en Kenneth Taylor hafði minnkað muninn.

Spænska liðið Athletic Bilbao vann 3-1 sigur á ítalska liðinu Roma og þar með 4-3 samanlagt. Rómverjar unnu fyrri leikinn en þurftu að spila manni færri í 79 mínútur.

Mats Hummels hjá Roma fékk beint rautt spjald á elleftu mínútu en mörk Bilbao skoruðu Nico Williams (45.+3 mínúta), Yuri Berchiche (68. mínúta) og Nico Williams aftur á 82. mínútu. Rómverjar minnkuðu muninn í lokin með marki Leandro Paredes úr víti en það var ekki nóg.

Norska liðið Bodö/Glimt tapaði 2-1 á útivelli á móti gríska liðinu Olympiacos en vann 4-2 samanlagt þökk sé 3-0 sigri í fyrri leiknum. Kasper Waarts Høgh kom norska liðinu yfir í hálfleik en Roman Yaremchuk skoraði tvisvar fyrir Grikkina í seinni hálfleik.

Ítalska liðið Lazio lenti undir á heimavelli á móti tékkneska liðinu Viktoria Plzen en jafnaði metin í 1-1 og fór áfram 3-2 samanlagt. Pavel Sulc kom Plzen yfir á 52. mínútu en Patric jafnaði fyrir ítalska liðið á 77. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×