Landsliðsmaðurinn Albert Guðmundsson skoraði þriðja marka Fiorentina er liðið vann öruggan sigur gegn Juventus í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.
Albert er kominn á fulla ferð eftir að hafa náð sér eftir meiðsli og hafði skorað í seinustu tveimur leikjum Fiorentina.
Hann var á sínum stað í byrjunarliði Fiorentina í kvöld, en Robin Gosens kom heimamönnum yfir strax á 15. mínútu leiksins. Aðeins þremur mínútum síðar tvöfaldaði Rolando Mandragora forystu Fiorentina og staðan því 2-0 í hálfleik.
Heimamenn byrjuðu síðari hálfleikinn svo af miklum krafti og Albert bætti þriðja marki Fiorentina við á 53. mínútu. Fleiri urðu mörkin hins vegar ekki.
Niðurstaðan því öruggur 3-0 sigur Fiorentina og liðið situr nú í áttunda sæti ítölsku deildarinnar með 48 stig eftir 29 leiki, fjórum stigum minna en Juventus sem situr í fimmta sæti.