Salah var að fá mánaðarverðlaunin í sjöunda skiptið á ferlinum og jafnar með því met þeirra Harry Kane og Sergio Aguero.
Salah var allt í öllu hjá Liverpool í mánuðinum og kom alls með beinum hætti að tíu mörkum, skoraði sex mörk og gaf fjórar stoðsendingar.
Hann skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri á Bournemouth og var einnig með mark í leikjum á móti Everton, Wolves og Aston Villa.
Hann var bæði með mark og stoðsendingu í 2-0 sigri á Manchester City og gaf síðan sautjándu stoðsendingu í deildinni í sigri á Newcastle.
Þetta er í annað skiptið sem Salah er kosinn besti leikmaður mánaðarins á tímabilinu en hann var einnig bestur í nóvember.
Beto (Everton), Jean-Philippe Mateta (Crystal Palace), Yankuba Minteh (Brighton & Hove Albion), Djed Spence (Tottenham Hotspur) og Dominik Szoboszlai (Liverpool) komu einnig til greina.
David Moyes var að fá stjóraverðlaunin í ellefta skiptið á ferlinum en aðeins þeir Sir Alex Ferguson og Arsene Wenger hafa fengið þau oftar. Moyes var besti stjórinn í fyrsta sinn síðan í marsmánuði 2013.
Moyes umbreytti Everton liðinu síðan hann tók við og liðið hefur brunað upp töfluna og yfirgefið fallbaráttuna á stuttum tíma.
Everton tapaði ekki leik í febrúar, vann sigra á Leicester City og Crystal Palace en gerði jafntefli við Liverpool og Manchester United.
Aðrir sem komu til greina voru Oliver Glasner, Ange Postecoglou, Marco Silva og Arne Slot.