Enski boltinn

Fagnaði eins og Fowler og þóttist sniffa línu á vellinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mitchell Voit og Robbie Fowler fögnuðu á svipaðan hátt.
Mitchell Voit og Robbie Fowler fögnuðu á svipaðan hátt.

Hafnaboltamaðurinn Mitchell Voit, sem leikur með Michigan háskólanum, hefur beðist afsökunar á óviðeigandi látbragði í leik gegn Suður-Karólínu háskólanum.

Eftir að hafa að komist í höfn beygði Voit sig nefnilega niður og þóttist sniffa línu á vellinum. Fagnið vakti mikla athygli og Voit sá sig knúinn til að biðjast afsökunar á því.

„Ég vil biðjast afsökunar á framferði mínu í þriðju höfn í gær. Ég tók óþroskaða ákvörðun í hita augnabliksins. Þetta látbragð endurspegalar ekki karakter minn, uppeldið sem ég hlaut og háskólann sem ég spila fyrir. Ég tek fulla ábyrgð á því sem ég gerði og bið alla sem urðu fyrir neikvæðum áhrifum frá þessu sannarlega afsökunar,“ skrifaði Voit á X.

Fagn Voits minnir um margt á frægt fagn Robbies Fowler í grannaslag Liverpool og Everton í ensku úrvalsdeildinni 1999. Hann þóttist þá sniffa vítateigslínuna. 

Fowler fékk sex leikja bann fyrir fagnið auk þess sem Liverpool sektaði hann um sextíu þúsund pund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×