Erlent

Rétta yfir Bolsonaro fyrir valdaránstilraun

Samúel Karl Ólason skrifar
Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseti Brasilíu, ávarpaði blaðamann fyrir utan þinghús landsins í dag. Þar gagnrýndi hann harðlega hæstarétt fyrir ákvörðunina.
Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseti Brasilíu, ávarpaði blaðamann fyrir utan þinghús landsins í dag. Þar gagnrýndi hann harðlega hæstarétt fyrir ákvörðunina. AP/Luis Nova

Réttað verður yfir Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseta Brasilíu, vegna meintra tilrauna hans til að fremja valdarán. Hann neitar þeim ásökunum sem á hann eru bornar og segist fórnarlamb pólitískra ofsókna.

Fimm dómarar hæstaréttar Brasilíu voru sammála um þessa ákvörðun en með því lýkur rúmlega tveggja ára löngu ferli frá því rannsókn lögreglu á ásökununum gegn Bolsonaro hófust.

Lögreglan kærði Bolsonaro og meinta samverkamenn hans til Hæstaréttar á sínum tíma og þaðan fór málið til ríkissaksóknara. Þar var ákveðið að ákæra Bolsonaro og Walter Braga Netto, herforingja og varaforsetaefni, hans, fyrir að leiða glæpasamtök sem vildu taka völdin í Brasilíu.

Þaðan fór málið aftur á borð hæstaréttar sem hefur nú tekið lokaákvörðun um að rétta megi yfir Bolsonaro og félögum. Forsetinn fyrrverandi er meðal annars ákærður fyrir að hafa ætla að eitra fyrir Luiz Inácio Lula da Silva, sem sigraði Bolsonaro í forsetakosningum 2022, og að skjóta Alexandre de Moraes, forseta hæstaréttar Brasilíu til bana. BBC segir Mares hafa verið fyrstan til að greiða atkvæði um ákvörðunina í dag.

Bolsonaro gekkst aldrei við ósigri sínum. Hann fór nokkrum dögum síðar til Bandaríkjanna en þann 8. janúar 2023 ruddust stuðningsmenn hans inn í opinberar byggingar og frömdu þar skemmdarverk og þjófnað. Um 1.500 menn voru handteknir.

Var það eftir að þúsundir stuðningsmanna hans höfðu reist tjaldbúðir við herstöð og reynt að fá herinn til að koma í veg fyrir embættistöku Lula.

Verði Bolsonaro, sem er sjötugur, fundinn sekur stendur hann frammi fyrir langri fangelsisvist.

Auk hans verður réttað yfir Alexandre Ramagem fyrrverandi yfirmanni leyniþjónustu Brasilíu, Almir Garnier Santos fyrrverandi yfirmanni í sjóher Brasilíu, Anderson Torres fyrrverandi öryggismálaráðherra, Augusto Heleno fyrrverandi herforingja og ráðherra stofnanaöryggis, Marcu Cid fyrrverandi aðstoðarmanni Bolsonaro, Walter Braga Netto fyrrverandi varnarmálaráðherra og Paulo Sérgio Nogueira de Oliveira sem er einnig fyrrverandi varnarmálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×