Erlent

Fleiri en 1600 látnir í Mjanmar

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Margar byggingar hrundu og mikil eyðilegging er í landinu.
Margar byggingar hrundu og mikil eyðilegging er í landinu. AP

Fleiri en sextán hundruð manns eru látnir eftir stóra jarðskjálfta í Mjanmar. Þúsundir eru slasaðir og tuga enn saknað.

Jarðskjálftinn skók Mjanmar um hádegi í gær og mældist að stærð 7,7. Þar á eftir skók annar skjálfti upp á 6,4 og fleiri minni skjálftar.

3048 eru manns slasaðir eftir skjálftann og 139 enn saknað. Í Taílandi létust níu og í höfuðborginni Bangkok hrundi háhýsi í byggingu niður vegna skjálftans. Þar er enn 47 saknað.

Mikil eyðilegging er eftir skjálftann en margar byggingar hrundu, vegir eyðilögðust og rafmagn sló út. 

Brú féll í Mjanmar.EPA

Enn er verið að leita í rústunum eftir fólki og kona að nafni Phyu Lay Kahing fannst í rústum íbúðarhússins síns þrjátíu klukkustundum eftir skjálftann samkvæmt umfjöllun The Guardian.

Enn er unnið að björgunaraðgerðum og yfir hundrað manns er saknað.AP

Fréttamenn á svæðinu greina frá að fólk býr sig undir að sofa úti á götu í stað þess að hætta sér inn í hálfhrunin heimili sín.

Kínverjar hafa sent rúmlega hundrað manns, þar á meðal sérfræðinga, til að aðstoða í björgunaraðgerðunum og ýmiss konar búnað. Þeir lofa einnig tæpum tveimur milljörðum íslenskra króna í neyðaraðstoð. Yfirvöld í Suður-Kóreu hafa einnig lofað fjármagni til aðstoðar íbúum Mjanmar ásamt Sameinuðu Þjóðunum.

Háhýsi í byggingu féll í Bangkok í Taílandi.EPA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×