Handbolti

„For­réttindi að fá að vera hluti af þessu liði“

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Þórey Anna skoraði átta mörk og var markahæst í liði Vals
Þórey Anna skoraði átta mörk og var markahæst í liði Vals Vísir/Jón Gautur

„Vá þetta var geðveikt! Ég bara bjóst aldrei við þessu að við myndum bara taka þær með tíu á heimavelli,“ sagði Þórey Anna Ásgeirsdóttir, hornamaður Vals, eftir glæsilegan tíu marka sigur á Iuventa Michalovce frá Slóvakíu í síðari leik liðanna í undanúrslitum Evrópubikarsins.

Úrslitin þýða að Valur er komið í úrslitaeinvígi um Evrópubikarinn, fyrst íslenskra kvennaliða.

„Við fórum bara inn í þennan leik bara þú veist ein vörn í einu og ein sókn í einu. Við erum ekki eins mikið að pæla í þessum tveimur mörkum og svo myndum við bara taka stöðuna í hálfleik hvað við þyrftum að gera og ég meina það þurfti aldrei að pæla í því,“ sagði Þórey Anna og hló geðshræringarhlátri.

„Maður er eiginlega ekki búin að melta þetta, en við náttúrulega eigum einn leik eftir í deildinni og ég held við verðum byrjaðar í úrslitakeppninni þegar fyrstu leikirnir eru [í úrslitum Evrópubikarsins], ég er bara ekki klár á því samt. Þannig að það eru í rauninni bara úrslitaleikir eftir.“

Valur mun mæta spænska liðinu Conservas Orbe Zendal Bm Porrino í úrslitaeinvíginu. Dregið verður um hvort liðið byrji á heimavelli á þriðjudag. Aðspurð hverjar óskirnar séu varðandi það segir Þórey Anna að sjálfsögðu vilja byrja á útivelli.

„Það er auðvitað að byrja úti og taka titilinn hérna heima, það væri náttúrulega algjör draumur, en við bara sjáum til hvernig það fer.“

Að lokum var Þórey Anna beðin um að lýsa þessu Valsliði sem hún er hluti af.

„Þetta lið er náttúrulega bara frábært. Fyrir mína parta eru það forréttindi að fá að vera hluti af þessu liði, hluti af þessum klúbbi hérna. Ég meina það er allt hérna upp á tíu. Við erum búnar að vera saman, þetta lið, í fjögur fimm ár og við erum bara að uppskera mjög vel. Það er ótrúlega vel haldið utan um okkur. Stjórnin á bara, vá! Hún á svo stórt hrós skilið, hún er með allt upp á tíu. Þetta er geggjað lið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×