Körfubolti

Kári Jóns meiddist illa á hné í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Jónsson meiddist illa í kvöld og þetta er vonandi ekki eins alvarlegt og það leit út.
Kári Jónsson meiddist illa í kvöld og þetta er vonandi ekki eins alvarlegt og það leit út. Vísir/Anton

Valsmenn urðu fyrir miklu áfalli í kvöld þegar landsliðsmaðurinn Kári Jónsson meiddist illa í fyrsta leiknum í einvígi Vals og Grindavíkur í átta liða úrslitum Bónus deildar karla í körfubolta.

Kári meiddist á hné í þriðja leikhluta og og spilaði ekki meira í leiknum. Hversu alvarleg meiðslin eru liggur ekki fyrir á þessari stundu en við fyrstu sýn leit þetta ekki vel út og Kári gat ekki gengið óstuddur af velli.

Kári meiddist á vinstra hné þegar hann keyrði á körfuna í þriðja leikhlutanum. Hann virtist fá hnykk á hnéð og lá síðan óvígur eftir í langa stund. 

Kári fékk aðhlynningu á vellinum og reyndi að standa upp en kveinkaði sér ógurlega og var að lokum borinn af velli í fanginu á Finni Atla Magnússyni, styrktarþjálfara Vals.

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, var spurður út í meiðslin eftir leik en gat lítið gefið upp á þessum tímapunkti.

„Ekki hugmynd. Það er allavega ljóst að hann meiddist þannig að hann gat ekki haldið áfram. Það er náttúrulega áhyggjuefni og mér fannst við svolítið „sjokkeraðir“ fyrst eftir það.“

Valsmenn náðu að klára leikinn án Kára. Hann var með 9 stig á 18 mínútum í þessum leik. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×