Margir töldu ljóst að Tarkowski ætti að fá rauða spjaldið á 11. mínútu leiksins í gær. Þó að hann færi fyrst í boltann fór hann með harkalegum hætti með sólann á undan sér í Mac Allister sem lá eftir.
Tarkowski fékk gult spjald. Myndbandsdómari leiksins skoðaði svo atvikið í tíu sekúndur en ákvað svo að ekki bæri að endurskoða málið.
Viðurkenna mistökin
BBC Sport greinir hins vegar frá því í dag að samkvæmt upplýsingum frá dómarasambandinu, PGMOL, hefði verið um það gróft brot að ræða að rauða spjaldið hefði átt að fara á loft. Myndbandsdómari hefði sem sagt átt að senda Sam Barrott í skjáinn og Barrott hefði átt að leiðrétta ákvörðun sína um gula spjaldið.
63 - James Tarkowski now has the joint most yellow cards without ever being sent off in Premier League history (63). Physical. pic.twitter.com/arZXhrRYRZ
— OptaJoe (@OptaJoe) April 2, 2025
Dómarasambandið telur nauðsynlegt að viðurkenna mistök sem þessi sem fyrst til að allt sé uppi á borðum og minni vafi um hvernig reglurnar séu.
Tarkowski bað Mac Allister afsökunar að leik loknum en þessi 32 ára enski varnarmaður deilir metinu yfir flest gul spjöld á ferlinum, 63 talsins, án þess að hafa fengið eitt einasta rauða spjald í úrvalsdeildinni.
Barton ekki sammála
David Moyes, stjóri Everton, viðurkenndi eftir 1-0 sigur Liverpool í gær að Tarkowski hefði verið heppinn að haldast inni á vellinum. Arne Slot, stjóri Liverpool, sagði að „jafnvel fólk sem líkaði ekki við Liverpool“ segði að um augljóst rautt spjald væri að ræða.
Þeir eru þó til sem að telja að brot Tarkowski ætti ekki að verðskulda rautt spjald. Joey Barton lýsti þeirri skoðun þar sem hann fylgdist með leiknum í beinni.
„Þetta er almennileg tækling í grannaslag. Áfram gakk,“ sagði Barton en bætti við: „VAR á eftir að uppfæra þetta. Hann verður sendur af velli.“
“It’s not even a foul!” @Joey7Barton on Tarkowski’s tackle pic.twitter.com/ZZNtvJwkWP
— Common Sense with Joey Barton (@Common_SensePod) April 3, 2025