Enski boltinn

Húð­flúr stuðningsmanns Newcastle gæti orðið al­gjör­lega gagns­laust

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Newcastle United eru duglegir við að skreyta sig með húðflúrum tengdum félaginu. Þessi mynd tengist fréttinni ekki beint.
Stuðningsmenn Newcastle United eru duglegir við að skreyta sig með húðflúrum tengdum félaginu. Þessi mynd tengist fréttinni ekki beint. Getty/Justin Setterfield

Sigurglaður stuðningsmaður Newcastle fagnaði deildabikarmeistaratitli félagsins á dögunum með sérstökum hætti en þetta gæti orðið stutt gaman hjá honum.

Newcastle vann 2-1 sigur á Liverpool í úrslitaleik á Wembley þökk sé mörkum frá Alexander Isak og Dan Burn en Newcastle vann þarna sinn fyrsta enska titil í sjötíu ár.

@Sportbladet

Þessi umræddi stuðningsmaður Newcastle fagnaði titlinum langþráða með því að húðflúra hægri kálfann sinn með QR-kóða. Aftonbladet fjallar um þetta.

QR-kóðinn var tengill á Youtube síðu þar sem horfa mátti á skallamark Dan Burn úr úrslitaleiknum. Burn kom Newcastle í 1-0 í leiknum.

Vandamálið er að myndbandið gæti verið fjarlægt að Youtube vegna brota á sýningarrétti.

Húðflúr kappans hefur vakið mikla athygli og notandi á samfélagsmiðlinum X hefur beðið um að myndbandið verði fjarlægt.

Það er spurning hvort að umræddur X-notandi sé súr og sár Liverpool stuðningsmaður en hann hefur að minnsta kosti fengið tuttugu þúsund til að líka við athugasemd sína.

Það hefur aukið líkurnar á því að myndbandið verði fjarlægt og þá verður þessi athyglisverði QR-kóði algjörlega gagnslaus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×