Enski boltinn

Sjáðu hitt rauða spjaldið sem Gylfi hefur fengið á ferlinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson lék 131 leik fyrir Swansea City, skoraði 37 mörk, gaf þrjátíu stoðsendingar og fékk eitt rautt spjald.
Gylfi Þór Sigurðsson lék 131 leik fyrir Swansea City, skoraði 37 mörk, gaf þrjátíu stoðsendingar og fékk eitt rautt spjald. getty/Alex Livesey

Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Víkings, fékk í gær sitt fyrsta rauða spjald í tíu ár, eða í 3.727 daga. 

Gylfi þreytti frumraun sína fyrir Víking þegar liðið tók á móti ÍBV í 1. umferð Bestu deildarinnar í gær. Gylfi var í byrjunarliði Víkinga en lék aðeins tæpan klukkutíma því á 55. mínútu fékk hann beint rautt spjald fyrir brot á Eyjamanninum Bjarka Birni Gunnarssyni.

Þetta er aðeins annað rauða spjaldið sem Gylfi fær á ferlinum og það fyrsta síðan í ársbyrjun 2015.

Hitt rauða spjaldið fékk hann í bikarleik Blackburn Rovers og Swansea City 24. janúar 2015. Gylfi kom Swansea yfir á 21. mínútu í leiknum á Ewood Park en Blackburn svaraði með þremur mörkum.

Í uppbótartíma tæklaði Gylfi Chris Taylor niður á miðjum vellinum og var sendur í sturtu. Brotið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Gylfi mátti gera sér að góðu að fylgjast með næstu þremur leikjum Swansea úr stúkunni, á meðan hann tók út leikbann.

Þrátt fyrir að missa Gylfa af velli í gær vann Víkingur ÍBV, 2-0. Daníel Hafsteinsson og Gunnar Vatnhamar skoruðu mörk Víkinga.

Næsti leikur Víkings er gegn bikarmeisturum KA á sunnudaginn. Þar tekur Gylfi út leikbann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×