Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook-síðu Slökkviliðs Fjarðabyggðar. Þar segir að útkallið hafi borist klukkan 01:40 í nótt. Tilkynnt hafi verið um sprengingu og mikinn svartan reyk frá þaki, auk þess sem óljóst hefði verið hvort fólk væri inni í húsinu.
Slökkviliðsmenn hafi lagt af stað á körfubíl og dæluvíl frá slökkvistöðinni á Hrauni, og heildarútkall hafi verið sent út á Reyðarfjörð og Fáskrúðsfjörð.
„Byggingin var rýmd og voru tvö reykkafarateymi send inn til leitar. Kom í ljós að sprenging hafi orðið í mjölþurrkara og brennd fita hafði einnig sprungið út úr honum. Enginn eldur var þegar við komum à vettvang en gott loftræstikerfi stóð fyrir sínu og var ekki þörf á reykræstingu af okkar hálfu,“ segir í færslunni.
Betur hafi farið en á horfðist í fyrstu, en þegar gengið hafi verið úr skugga um að enginn eldur væri í byggingunni og hætta liðin hjá hafi viðbragðsaðilar á leið á vettvang verið afturkallaðir. Aðgerðum slökkviliðs hafi lokið klukkan 02:29.