Enski boltinn

Klopp mætir aftur til Liverpool í næsta mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp naut gríðarlegra vinsælda hjá Liverpool enda batt hann meðal annars endi á þrjátíu ára bið félagsins eftir Englandsmeistaratitli.
Jürgen Klopp naut gríðarlegra vinsælda hjá Liverpool enda batt hann meðal annars endi á þrjátíu ára bið félagsins eftir Englandsmeistaratitli. Getty/James Baylis

Jürgen Klopp, fyrrum knattspyrnustjóri Liverpool, snýr aftur til Liverpool borgar í næsta mánuði en það verður í fyrsta sinn sem hann kemur þangað eftir að hann hætti sem knattspyrnustjóri liðsins síðasta vor.

Klopp var knattspyrnustjóri Liverpool í níu ár og liðið vann alla helstu titla undir hans stjórn. Liðið varð aftur á móti bara einu sinni enskur meistari.

Klopp var gerður að fyrsta heiðurssendiherra LFC Foundation góðgerðasamtakanna síðasta sumar og mun mæta í hóf hjá samtökunum í Liverpool 23. maí næstkomandi.

Hófið verður haldið sömu helgi og lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar fer fram. Liverpool mætir Crystal Palace á Anfield þessa helgi og gæti mögulega tekið við Englandsmeistaratitlinum í leikslok og með Klopp þá líklegast í stúkunni.

Arne Slot, eftirmaður Klopp, hefur gert frábæra hluti með Liverpool á sínu fyrsta tímabili en liðið er með ellefu stiga forskot á toppi deildarinnar. Liverpool þarf að ná í ellefu stig út úr síðustu sjö leikjum sínum til þess að tyggja sér Englandsmeistaratitilinn í tuttugasta skiptið.

Klopp hefur haldið sér fjarri Liverpool síðan Slot tók við og Þjóðverjinn er sjálfur síðan komin í starf hjá Red Bull fótboltasamstæðunni sem á fótboltafélög út um allan heim.

Klopp á samt mikinn þátt í velgengni Liverpool á þessari leiktíð, hann byggði upp leikmannahópinn sem Slot er að vinna með og Klopp lagði líka ofurkapp á það að stuðningsmenn Liverpool tækju vel á móti Slot. Hver getur gleymt Slot söngnum hans Klopp eftir lokaleik sinn sem knattspyrnustjóri Liverpool?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×