Pétur Jökull var ákærður fyrir aðild að innflutningi á tæplega hundrað kílóum af kókaíni sumarið 2022. Efnin voru falin í timbursendingu frá Brasilíu. Sendingin var stöðvuð í Rotterdam Hollandi og efnunum skipt út fyrir gerviefni. Síðan voru fjórir menn handteknir, en þeir játuðu sök og voru allir sakfelldir fyrir sinn þátt áður en Pétur Jökull var handtekinn.
Þar var þyngsti dómurinn níu ára fangelsi en vægustu dómarnir fimm ára fangelsisrefsing.
Það var síðan í upphafi síðasta árs sem Interpol lýsti eftir Pétri Jökli. Nokkrum dögum eftir að greint var frá því kom hann sjálfviljugur til Íslands og var handtekinn. Nokkrum mánuður seinna var hann ákærður og svo var réttað yfir honum. Ólíkt hinum mönnunum neitaði Pétur Jökull sök.
Lykilvitni í máli Péturs Jökuls var Daði Björnsson, sem hlaut fimm ára fangelsisdóm fyrir sinn hlut í málinu. Hann bar vitni í aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur og þvertók þá fyrir það að maður að nafni Pétur, sem hann hefði verið í miklum samskiptum við í tengslum við innflutninginn, væri Pétur Jökull.
Saksóknari sagði hins vegar að ansi mörg gögn tengdu hann við málið, líkt og hljóðupptökur sem væri búið að raddgreina. Pétur Jökull væri einstaklega óheppinn maður væri það algjör tilviljun hversu margt tengdi hann við málið.
Það var mat dómara í héraði að framburður Daða væri ótrúverðugur. Daði hefði alltaf verið undir aðra settur og verið sagt fyrir verkum þegar brotið var framið. Hann væri í viðkvæmri stöðu og væri í hættu á lenda í leiðinlegum eftirmálum myndi hann bera sakir á Pétur Jökul.
Það var mat héraðsdóms að Pétur Jökull hefði verið aðalmaður við framningu brotsins og samverkamaður fjórmenninganna sem höfðu áður hlotið dóm.
Við mat á refsingu í héraði var litið til sakaferils Péturs Jökuls, sem er 45 ára gamall, sem nær aftur til ársins 2007. Þar vægi þyngst tveggja ára fangelsisdómur fyrir innflutning á fíkniefnum árið 2010 og fimm mánaða fangelsisdómur ári síðar fyrir rán.
Landsréttur staðfesti dóminn úr héraði. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhald sem Pétur Jökull hefur sætt við meðferð málsins. Hann þarf að greiða allan málskostnað, upp á 5,5 milljónir króna.