Innlent

Meiri­hluti hefur litlar væntingar til borgar­stjórnar­meiri­hlutans

Kjartan Kjartansson skrifar
Fulltrúar nýju meirihlutaflokkanna í Reykjavík þegar þeir kynntu samstarf sitt í febrúar.
Fulltrúar nýju meirihlutaflokkanna í Reykjavík þegar þeir kynntu samstarf sitt í febrúar. Vísir/Vilhelm

Rúmur helmingur svarenda í skoðanakönnun Maskínu ber litlar væntingar til nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Sérstaklega bera borgarbúar austan Elliðaáa litlar væntingar til hans.

Samfylkingin, Píratar, Flokkur fólksins, Sósíalistaflokkurinn og Vinstri græn mynduðu nýjan meirihluta í borgarstjórn eftir að Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, sprengdi meirihlutasamstarfið við Samfylkinguna og Viðreisn í febrúar.

Borgarbúar virðast ekki sérlega trúaðir á samstarfið ef marka má niðurstöður könnunar Maskínu sem var gerð í þessum mánuði. Þar sögðust 53 prósent svarenda hafa litlar væntingar til meirihlutans en um fjórðungur miklar.

Þó nokkur munur var á afstöðu svarenda eftir því hvar þeir bjuggu í borginni. Þannig sögðust hátt í 58 prósent þeirra sem bjuggu austan Elliðaáa hafa litlar væntingar, borið saman við 48,5 prósent í miðborginni og Vesturbænum annars vegar og 49,7 prósent í Hlíðum, Laugardal, Háaleiti og Bústöðum. 

Konur eru jákvæðari í garð meirihlutans en karlar. Meira en 56 prósent karla sögðust hafa litlar væntingar en 47,6 prósent kvenna.

Athygli vekur að af þeim svarendum sem sögðust myndu kjósa Flokk fólksins höfðu tæp 44 prósent litlar væntingar til meirihlutasamstarfsins sem flokkurinn er þátttakandi í. Kjósendur Samfylkingarinnar höfðu mesta trú á samstarfinu. Rúm 53 prósent þeirra sögðust bera miklar vonir til meirihlutans en 15,5 prósent litlar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×