Íslenski boltinn

Sjáðu vítin á Hlíðar­enda, skraut­leg mörk í Garða­bæ og um­deilt mark Fram

Sindri Sverrisson skrifar
Jónatan ingi Jónsson átti stóran þátt í jöfnunarmarki Vals gegn Víkingi því hann krækti í vítaspyrnuna.
Jónatan ingi Jónsson átti stóran þátt í jöfnunarmarki Vals gegn Víkingi því hann krækti í vítaspyrnuna. vísir/Diego

Valur og Víkingur skildu jöfn, 1-1, í stórleik 4. umferðar Bestu deildar karla í fótbolta í gærkvöld á meðan að Fram vann 3-0 gegn Aftureldingu. ÍBV hélt áfram að koma á óvart með 3-2 sigri á Stjörnunni í Garðabæ. Öll mörkin má nú sjá á Vísi.

Bæði mörkin á Hlíðarenda í gær komu af vítapunktinum. Fyrst krækti Stígur Diljan Þórðarson í víti og þó að Gylfi Þór Sigurðsson væri á svæðinu þá var það Helgi Guðjónsson sem tók spyrnuna og skoraði af miklu öryggi.

Í viðtali eftir leik setti Gylfi spurningamerki við dómgæsluna í jöfnunarmarki Valsara sem fengu að taka aukaspyrnu fljótt og uppskáru í kjölfarið víti þegar brotið var á Jónatani Inga Jónssyni. Patrick Pedersen skoraði úr spyrnunni.

Í Safamýri skoruðu Kennie Chopart og Kyle McLagan tvö góð skallamörk í fyrri hálfleiknum. Þriðja markið var svo umdeilt en það skoraði Vuk Oskar Dimitrijevic eftir að gestirnir úr Mosfellsbæ töldu Framara hafa brotið af sér.

Í Garðabænum skoraði Bjarki Björn Gunnarsson glæsimark, í slá og inn, og kom ÍBV í 2-0 eftir skrautlegt sjálfsmark heimamanna. Sindri Þór Ingimarsson minnkaði muninn með ekki síður furðulegu marki þegar Marcel Zapytowski missti boltann einhvern veginn á milli fóta sér. Oliver Heiðarsson kom svo ÍBV í 3-1 áður en Sindri minnkaði muninn í blálokin með sínu öðru marki en þetta voru hans fyrstu mörk í efstu deild.


Tengdar fréttir

Sjáðu markaveislu KR og rothögg KA gegn FH

KR-ingar slógu upp veislu í Laugardalnum í gær þegar þeir völtuðu yfir Skagamenn, 5-0. KA skoraði sigurmark nokkrum sekúndum eftir að FH jafnaði og Breiðablik kom sér yfir Vestra á toppinn. Mörkin úr Bestu deild karla í gær má nú sjá á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×