Enski boltinn

Leik­maður Palace vann tvær og hálfa milljón á skákmóti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eberechi Eze fagnar eftir að Crystal Palace tryggði sér sæti í úrslitum ensku bikarkeppninnar.
Eberechi Eze fagnar eftir að Crystal Palace tryggði sér sæti í úrslitum ensku bikarkeppninnar. getty/Mike Egerton

Eberechi Eze er fleira til lista lagt en að spila fótbolta. Hann er nefnilega naskur skákmaður og vann sér inn rúmlega tvær og hálfa milljón fyrir sigur á móti á netinu á dögunum.

Síðustu dagar hafa verið gjöfulir fyrir Eze. Um síðustu helgi skoraði hann í 3-0 sigri Crystal Palace á Aston Villa í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar.

Skömmu síðar vann hann svo sigur á skákmóti á netinu þar sem tólf samfélagsmiðlastjörnur og íþróttamenn leiddu saman hesta sína.

Fyrir sigurinn á mótinu, sem stóð yfir í fjóra daga, fékk Eze fimmtán þúsund pund, eða rúmlega 2,5 milljón íslenskra króna.

Eze smitaðist af skákáhuganum eftir að Michael Olise, fyrrverandi samherji hans hjá Palace, kenndi honum að tefla.

Eze og félagar í Palace fá Nottingham Forest í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld. Í vetur hefur Eze skorað níu mörk og gefið ellefu stoðsendingar í 38 leikjum fyrir Palace í öllum keppnum.

Palace keypti hinn 26 ára Eze frá QPR fyrir fimm árum. Hann hefur leikið tíu leiki fyrir enska landsliðið og skorað eitt mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×