Innlent

Viðvörunarbjöllur óma vegna verð­hækkana

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra. Vísir/Ívar

Atvinnuvegaráðherra segir viðvörunarbjöllur óma þegar matvöruverð hækkar á sama tíma og krónan styrkist. Hún hefur kallað eftir gögnum og skýringum á verðþróuninni.

Ríkisstjórnin ræddi um hækkun matvöruverðs og hlut þess í þróun á vísitölu neysluverðs á fundi sínum í morgun. Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra segir verðþróunina þess eðlis að tilefni sé til að staldra við.

„Ef við skoðum tölurnar að þá hefur vísitala neysluverðs á síðastliðnum tólf mánuðum hækkað um 4,2 prósent en á sama tíma hefur matar- og drykkjarvara hækkað um 5,7 prósent. Við vitum líka að krónan hefur styrkst á þessu tímabili þannig það er full ástæða til þess að fara ofan í saumana á þessu,“ segir Hanna Katrín.

Til stendur að greina hvaða undirliggjandi þættir hafi þar áhrif í verðlagsþróun. „Ég hef verið að kalla eftir gögnum og við erum bara að skoða þetta.“

Meðal þess sem verður skoðað er hvort umdeildar breytingar á búvörulögum hafi haft áhrif á verðlag. „Þar sem samkeppnisreglum var kippt úr sambandi þegar kemur að sameiningu og samruna afurðastöðva, hvort það hafi haft áhrif til hækkunar á kjötverði.

Verð á matar- og drykkjarvörum hefur hækkað um 5,7 prósent á síðustu tólf mánuðum samkvæmt Hagstofunni.Vísir/Vilhelm

Mögulegar aðgerðir komi til skoðunar eftir greiningu á þróuninni.

„En það eru auðvitað viðvörunarbjöllur sem hringja þegar við erum að horfa upp á styrkingu krónunnar á sama tíma og verð á mat og drykk er að hækka. Við þurfum að átta okkur á skiptingunni á milli innfluttrar matvöru og aðfanga og svo innlendrar framleiðslu,“ sagði Hanna Katrín að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×