Handbolti

Al­freð kom Þjóð­verjum á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason og hans menn verða með á EM í janúar.
Alfreð Gíslason og hans menn verða með á EM í janúar. Getty/Swen Pförtner

Þýska karlalandsliðið í handbolta tryggði sér í kvöld sæti í úrslitakeppni Evrópumótsins á næsta ári en liðinu nægði jafntefli á útivelli á móti Sviss.

Sviss og Þýskaland gerðu 32-32 jafntefli en Sviss var þremur mörkum yfir í hálfleik, 14-11.

Alfreð Gíslason er þjálfari Þjóðverja og hann sá sína menn vera í talsverðum vandræðum á móti grimmur heimamönnum. Svisslendingar náðu mest fimm marka forystu í fyrri hálfleiknum.

Svisslendingar voru yfir nær allan leikinn en Þjóðverjar tryggðu sér jafntefli með því að skora þrjú síðustu mörk leiksins.

Juri Knorr skoraði síðasta mark leiksins úr vítakasti en Andreas Wolff hafði varið vel í sókninni á undan. Alfreð tók leikhlé fyrir lokasóknin sem skilaði víti og jöfnunarmarki.

Þýska liðið er efst í sínum riðli með átta stig en Sviss og Austurríki eru með sex stig. Þau spila hreinan úrslitaleik um annað sætið í lokaumferðinni.

Alfreð er þriðji íslenski þjálfarinn til að koma liði sínu á EM en áður höfðu Snorri Steinn Guðjónsson (þjálfari Íslands) og Dagur Sigurðsson (þjálfari Króatíu) komið sínum liðum inn á Evrópumótið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×