Jol hefur augastað á Kuyt
Martin Jol, knattspyrnustjóri Tottenham, hefur mikinn augastað á landa sínum Dirk Kuyt hjá Feyenoord í Hollandi, en hann er að leita sér að sterkum framherja í stað Fredi Kanoute sem seldur var til Sevilla á Spáni í vikunni. "Ég neita því ekki að við erum mjög hrifnir af Dirk, en við erum ekki einir um það," sagði Jol, en Kuyt þessi er landsliðsframherji og skoraði 29 mörk fyrir Feyenoord á síðustu leiktíð. "Það að gera tilboð í leikmann er ekki það sama og að landa honum. Ég veit að það eru fleiri lið á eftir honum og svo erum við líka að skoða aðra leikmenn," sagði Jol, en nú eru aðeins 12 dagar þangað til að leikmannaskiptaglugginn lokast.