Ástæðan er auðvitað sú að blokkin gnæfir yfir nærliggjandi hús og hverfi sem að jafnaði samanstendur af tvílyftum timburhúsum með þriggja hæða steinhúsum á stöku stað, allt með tilheyrandi áhrifum fyrir útsýni, birtu og vindstrengi. Samt er blokkin við Vesturgötu ekki nema fimm hæðir!

Hvernig dettur einhverjum í hug að leggja fram tillögur um 5 til 7 hæða byggð í gamla Vesturbænum þegar að vítin til að varast eru svo borðliggjandi? Dagur B. Eggertsson, formaður skipulags- og byggingarnefndar, hefur á fundum með íbúum vakið athygli á því að landið halli í átt sjávar og því hljóti allir að sjá að það sé í góðu lagi að byggingar hækki eftir því sem landið lækki. Með þessum rökum væri auðvitað hægt að miða hæð byggðar á Mýrargötu-Slippsvæðinu við Landakotsspítala og byggja þar með 80 hæða skýjakljúfa með fram sjónum. Og e.t.v. er það þetta sem byggingaryfirvöld hefðu helst hafa viljað gera, ef þau hefðu ein verið í ráðum. Einhvers konar virðing fyrir byggðinni sem fyrir er, virðist a.m.k. algerlega hafa vikið fyrir eftirsókn í hámarksbyggingarmagn á hvern mögulegan byggjanlegan fermetra, auðvitað með tilheyrandi vandamálum fyrir dagvistun, skólakerfi, umferð og bílastæði. Stefnum við hraðbyri að enn einu skipulagsslysinu í Reykjavík?
Höfundur er íbúi við Bakkastíg í Reykjavík.