Vantar fólk í álverin? 27. febrúar 2006 00:01 Ástæða er til að hlusta á varnaðarorð kennara um að í bígerð sé að skerða nám til stúdentsprófs - ekki bara stytta það. Spurt er: hví skyldu íslensk ungmenni vera fjögur ár að því sem evrópsk ungmenni gera á þremur árum? Það er reyndar sérlega áhrifarík og lævísleg röksemd á þessum tímum þegar sjálfsmynd þjóðarinnar finnur einkum speglun í Silvíu Nótt, þessari skringilegu blöndu af Ragnheiði Birnu úr Þetta er allt að koma og eyðingargyðjunni Kalí með tunguna úti, fullri af ofsafengnu oflæti og bernskri sjálfhverfu... Já - hví ættu íslenskir krakkar að vera ári lengur í menntaskóla en jafnaldrar í Evrópu? Kannski er ekki rétt spurt. Mætti ekki allt eins spyrja: hví geta evrópsk ungmenni lært það á þremur árum sem tekur þau íslensku fjögur ár. Svarið liggur í undirbúningnum - í grunnskólanum. Af einhverjum ástæðum virðist tíminn ekki nýtast sem skyldi hjá íslenskum börnum, að minnsta kosti ekki ef miðað er við börn í Evrópu sem almennt virðast læra meira og markvissar en þau íslensku. Þegar maður fylgist með blessuðum börnunum nema á augabragði öll júróvisjónlögin, hvert orð í hverju lagi, þá spyr maður sig óneitanlega hvort ekki væri hægt að nýta þetta ógnarnæmi til fleiri hluta líka. Ekki sýnist vera óhætt að skerða nám í framhaldsskólunum fyrr en við höfum verið sannfærð um að nám í íslenskum grunnskólum sé sambærilegt við það sem gerist best í Evrópu. Önnur spurning sem velta mætti fyrir sér: hvað er að? Hver er nákvæmlega vandinn? Of mikil menntun? Hvers vegna er svo brýnt að draga úr menntun íslenskra ungmenna? Vantar fólk í álverin? Eða eru íslensk ungmenni of vel menntuð þegar komið er í framhaldsnám? Benda umsagnir háskólakennara til dæmis í stærðfræði um undirbúning nýnema við háskólana til þess að nú sé brýnast af öllu að skerða nám í þessum greinum? Það er helst að maður hafi orðið var við raddir um nauðsyn þess að stytta nám frá því fólki sem kallar sig alltaf "atvinnulífið" - eða "viðskiptalífið" - þegar það tekur til máls og er sennilega sama fólkið og skrifar á nokkurra ára fresti skýrslur um að Íslendingar skuli taka upp ensku. Hugsunin virðist þá sú að atvinnulífið þurfi á því að halda að þetta menntaða vinnuafl komi fyrr á vinnumarkaðinn, nýtist fyrr. En hinar svokölluðu þarfir atvinnulífsins geta aldrei orðið einhlítur mælikvarði á það hvernig íslenskri menningu skuli háttað. Fyrst og fremst er ástæða til að leggja eyrun við því sem kennarar segja um þessi mál, því að þeir þekkja vitanlega best til þeirra - kennararnir vita best hvernig börnin koma undirbúin í framhaldsskólana, hvað þau læra þar, hverju verður fórnað nái hugmyndir menntamálaráðherra fram að ganga. Óneitanlega hefur manni stundum virst sem forysta samtakanna hafi gengið fram af meiri röggsemi en nú, og undarlegt að fylgjast með hálfgerðu karpi þessara forystumanna við umbjóðendur sína, þar sem þeir eru nánast að biðja þá um að vera ekki að skipta sér af þessu, en skuli "treysta" forystunni; þarna skortir átakanlega á samhljóm. Það hvarflar að manni að ef til vill hafi verið gengið á baráttueldsneyti stéttarinnar og forystu hennar í hinu langa verkfalli grunnskólakennara í fyrra. Án þess að vilja gerast talsmaður frjálshyggju og anarkisma: þarf ekki fyrst og fremst að draga dálítið úr miðstýringu í íslensku skólakerfi? Láta völdin í hendur kennurunum og skólastjórunum í stað þess að í ráðuneytinu sitji fólk við að skipuleggja allt milli himins og jarðar? Hvað er málið með öll þessi samræmdu próf sem skólastarfið miðast svo mikið við að börnin þurfi að standast - og voru meira að segja látin taka eftir að hafa húkt heima mánuðum saman meðan geisaði verkfall? Hvað mæla þessi próf, hvað segja þau okkur, hvernig gagnast þau börnunum? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Skoðanir Mest lesið Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Skilur Kristrún ekki, að stærð kökunnar er mál nr. 1? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hvar ertu Auddi Blö: Opið bréf til Bjarna Ben frá sérfræðingi Ásta Kristín Pjetursdóttir Skoðun Greinin sem þú verður að lesa áður en þú ferð á kjörstað Bessí Þóra Jónsdóttir Skoðun Ekki láta Sjálfstæðisflokkinn ljúga að þér Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Flokkur í felulitum Björn Gíslason Skoðun Nýtt húsnæðislánakerfi að danskri fyrirmynd? Jónas Már Torfason Skoðun Er einhver að hlusta? Hópur 143 Seyðfirðinga Skoðun Höldum okkur á dagskrá Hópur fólks innan íþróttahreyfingarinnar Skoðun
Ástæða er til að hlusta á varnaðarorð kennara um að í bígerð sé að skerða nám til stúdentsprófs - ekki bara stytta það. Spurt er: hví skyldu íslensk ungmenni vera fjögur ár að því sem evrópsk ungmenni gera á þremur árum? Það er reyndar sérlega áhrifarík og lævísleg röksemd á þessum tímum þegar sjálfsmynd þjóðarinnar finnur einkum speglun í Silvíu Nótt, þessari skringilegu blöndu af Ragnheiði Birnu úr Þetta er allt að koma og eyðingargyðjunni Kalí með tunguna úti, fullri af ofsafengnu oflæti og bernskri sjálfhverfu... Já - hví ættu íslenskir krakkar að vera ári lengur í menntaskóla en jafnaldrar í Evrópu? Kannski er ekki rétt spurt. Mætti ekki allt eins spyrja: hví geta evrópsk ungmenni lært það á þremur árum sem tekur þau íslensku fjögur ár. Svarið liggur í undirbúningnum - í grunnskólanum. Af einhverjum ástæðum virðist tíminn ekki nýtast sem skyldi hjá íslenskum börnum, að minnsta kosti ekki ef miðað er við börn í Evrópu sem almennt virðast læra meira og markvissar en þau íslensku. Þegar maður fylgist með blessuðum börnunum nema á augabragði öll júróvisjónlögin, hvert orð í hverju lagi, þá spyr maður sig óneitanlega hvort ekki væri hægt að nýta þetta ógnarnæmi til fleiri hluta líka. Ekki sýnist vera óhætt að skerða nám í framhaldsskólunum fyrr en við höfum verið sannfærð um að nám í íslenskum grunnskólum sé sambærilegt við það sem gerist best í Evrópu. Önnur spurning sem velta mætti fyrir sér: hvað er að? Hver er nákvæmlega vandinn? Of mikil menntun? Hvers vegna er svo brýnt að draga úr menntun íslenskra ungmenna? Vantar fólk í álverin? Eða eru íslensk ungmenni of vel menntuð þegar komið er í framhaldsnám? Benda umsagnir háskólakennara til dæmis í stærðfræði um undirbúning nýnema við háskólana til þess að nú sé brýnast af öllu að skerða nám í þessum greinum? Það er helst að maður hafi orðið var við raddir um nauðsyn þess að stytta nám frá því fólki sem kallar sig alltaf "atvinnulífið" - eða "viðskiptalífið" - þegar það tekur til máls og er sennilega sama fólkið og skrifar á nokkurra ára fresti skýrslur um að Íslendingar skuli taka upp ensku. Hugsunin virðist þá sú að atvinnulífið þurfi á því að halda að þetta menntaða vinnuafl komi fyrr á vinnumarkaðinn, nýtist fyrr. En hinar svokölluðu þarfir atvinnulífsins geta aldrei orðið einhlítur mælikvarði á það hvernig íslenskri menningu skuli háttað. Fyrst og fremst er ástæða til að leggja eyrun við því sem kennarar segja um þessi mál, því að þeir þekkja vitanlega best til þeirra - kennararnir vita best hvernig börnin koma undirbúin í framhaldsskólana, hvað þau læra þar, hverju verður fórnað nái hugmyndir menntamálaráðherra fram að ganga. Óneitanlega hefur manni stundum virst sem forysta samtakanna hafi gengið fram af meiri röggsemi en nú, og undarlegt að fylgjast með hálfgerðu karpi þessara forystumanna við umbjóðendur sína, þar sem þeir eru nánast að biðja þá um að vera ekki að skipta sér af þessu, en skuli "treysta" forystunni; þarna skortir átakanlega á samhljóm. Það hvarflar að manni að ef til vill hafi verið gengið á baráttueldsneyti stéttarinnar og forystu hennar í hinu langa verkfalli grunnskólakennara í fyrra. Án þess að vilja gerast talsmaður frjálshyggju og anarkisma: þarf ekki fyrst og fremst að draga dálítið úr miðstýringu í íslensku skólakerfi? Láta völdin í hendur kennurunum og skólastjórunum í stað þess að í ráðuneytinu sitji fólk við að skipuleggja allt milli himins og jarðar? Hvað er málið með öll þessi samræmdu próf sem skólastarfið miðast svo mikið við að börnin þurfi að standast - og voru meira að segja látin taka eftir að hafa húkt heima mánuðum saman meðan geisaði verkfall? Hvað mæla þessi próf, hvað segja þau okkur, hvernig gagnast þau börnunum?