Svona pistlar 3. apríl 2006 00:01 Karl einn fór til kirkju einu sinni sem oftar. Þegar hann kemur heim spyr kerling hvað presturinn hafi talað um. Hann talaði um syndina, segir karl. Og hvað sagði hann nú um syndina? segir kerling. Hann var á móti henni, segir karl. Gömul íslensk fyndni gengur furðu oft út á kalla og kellinga að segja eitthvað um eða við presta og þessi skrýtla - sem faðir minn segir mér stundum - er þar engin undantekning. Hún er eiginlega um svona pistla. Hún er áminning um það sem situr eftir hjá viðtakendum þegar pistlahöfundar þrástagast á sömu vandlætingarefnunum ár eftir ár með sömu orðum og sömu dæmum og gæta þess ekki að láta hugann reika þegar þeir skrifa. Fyrirsegjanleikinn er svona dálki hættulegastur. Hvað var hann Guðmundur Andri að skrifa um í dag? Herinn. Og hvað sagði hann um herinn? Hann var á móti honum. Þegar maður heldur úti svona pistlum þarf maður að vera óhræddur við að endurnýja sig. Maður þarf að hugsa hugsanir sem maður hefur ekki hugsað áður. Maður þarf að nálgast málefni sífellt úr nýrri átt. Maður þarf að láta hugann reika - en maður má ekki láta hugann reka. Maður þarf að vera virkur í hugsunum sínum. Og maður þarf að gæta þess að skrifa ekki eins og prestur að flytja nítjánhundruðustu stólræðuna um syndina örgu. Sumt fólk vill þannig pistla. Til er fólk sem vill fá afhenta snoturlega innpakkaða skoðun dagsins til að staðfesta það sem því var kennt í æsku. Og dæmin sanna að til er fólk sem heldur að lífið sé nokkurs konar gettu-betur-keppni þar sem eitt rétt svar er við álitaefnunum. Skrípamyndamálið danska er afar gott dæmi um mál þar sem takast á í manni sjálfum nánast ósættanleg sjónarmið - eins og ég reyndi að sýna fram á með tveimur greinum þar sem komist var að tveimur ólíkum niðurstöðum. Í rauninni var helsti óvinurinn í því máli sjálfur ósveigjanleikinn í báðum herbúðum, þráin eftir "hinu rétta svari"; rasistanna hjá Jótlandspóstinum sem lögðu sig í líma við að erta múslima til að þjóna stereótýpískri mynd af "þessu fólki" og klerkanna sem gengu beint í gildruna með yfirgengilega heimskulegum og pavlovískum viðbrögðum.Og fórnarlömbin voru venjulegt fólkVið lifum á ískyggilegum tímum, þar sem við erum krafin um einfalda afstöðu til flókinna mála. En þegar við reynum að bregðast við tíðindum heimsins þá hljótum við alltaf að vega það og meta hvernig reynir á grundvallarhugsjónir á borð við tjáningarfrelsi og kærleiksboðorð Krists: ég vona að niðurstaðan úr þessum tveimur greinum mínum hafi verið sú að þetta verði að fylgjast að og að okkur beri að amast við því þegar fjölmiðlar eru notaðir til að særa fólk blaðamönnum til skemmtunar eða svölunar annarra kennda, um leið og við hömrum á grundvallarrétti manna til að tjá sig. Bubbamálið: þar var ekki tekist á um rétt blaðamanna til að segja sannleikann um Bubba heldur til að segja ósatt um Bubba - undir rós að vísu, iðandi af pöddum. Þar var tekist á um rétt blaðamanns til að nota blað - opinberan vettvang - til að jafna einhverjar gamlar prívatsakir við nafntogaðan mann, sem engum koma við. Þar var tekist á um það hvort fólk geti haft mannorð og mannhelgi þótt það spili betur á gítar og syngi betur en aðrir menn.Stundum finnst mér eins og ég hafi ekki skoðanir - heldur að skoðanir hafi mig. Þegar hugsað er um dægurmálin og pólitíkina þá er maður óðara kominn ofan í hjólför sem leiða mann á fyrirfram ákveðna áfangastaði þar sem öðrum megin stendur Hannes Hólmsteinn og veifar manni ákafur en á hinum endanum bíður Sverrir Jakobsson réttsýnn á svip. Ég hylli ekki skoðanaleysið - en ég vil biðja fólk um að vara sig á skoðanafestunni. Hún jafngildir nefnilega óbreyttu ástandi. Maður bara spólar.Svona pistlar eiga ekki að fylla huga lesenda af skoðunum - heldur að tæma huga lesenda af klisjum. Svona pistlar eiga að taka til skoðunar það sem ráðamenn ríkjandi viðhorfa segja - til hægri og vinstri, upp og niður, út og suður. Þannig er nú það. Og það heldur nú hann ég. Í þrjú ár hef ég vaknað á sunnudagsmorgnum og skrifað pistilinn, svolítið eins og prestur að skrifa stólræðu dagsins. Þetta er orðið ágætt. Ég þarf að fara að pikka eitthvað annað á tölvuna - ég ætla með Davíð Oddssyni í skoðanabindindi. Ætli við hittumst ekki á O.A.-fundum (Opinionated Anonymus). Ég þakka fyrir mig, starfsfólki Fréttablaðsins og lesendum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Skoðanir Mest lesið Braggablús Ölmu Eyþór Kristleifsson Skoðun Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar Victor Guðmundsson Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Tryggjum Svandísi á þing Hópur stuðningsfólks Svandísar Svavarsdóttur Skoðun Helvítis Píratarnir Unnar Þór Sæmundsson Skoðun Flokkur í felulitum Björn Gíslason Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Skilur Kristrún ekki, að stærð kökunnar er mál nr. 1? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Af hverju er ráðherra Sjálfstæðisflokksins að gjaldfella íslenska iðnnámið? Böðvar Ingi Guðbjartsson Skoðun
Karl einn fór til kirkju einu sinni sem oftar. Þegar hann kemur heim spyr kerling hvað presturinn hafi talað um. Hann talaði um syndina, segir karl. Og hvað sagði hann nú um syndina? segir kerling. Hann var á móti henni, segir karl. Gömul íslensk fyndni gengur furðu oft út á kalla og kellinga að segja eitthvað um eða við presta og þessi skrýtla - sem faðir minn segir mér stundum - er þar engin undantekning. Hún er eiginlega um svona pistla. Hún er áminning um það sem situr eftir hjá viðtakendum þegar pistlahöfundar þrástagast á sömu vandlætingarefnunum ár eftir ár með sömu orðum og sömu dæmum og gæta þess ekki að láta hugann reika þegar þeir skrifa. Fyrirsegjanleikinn er svona dálki hættulegastur. Hvað var hann Guðmundur Andri að skrifa um í dag? Herinn. Og hvað sagði hann um herinn? Hann var á móti honum. Þegar maður heldur úti svona pistlum þarf maður að vera óhræddur við að endurnýja sig. Maður þarf að hugsa hugsanir sem maður hefur ekki hugsað áður. Maður þarf að nálgast málefni sífellt úr nýrri átt. Maður þarf að láta hugann reika - en maður má ekki láta hugann reka. Maður þarf að vera virkur í hugsunum sínum. Og maður þarf að gæta þess að skrifa ekki eins og prestur að flytja nítjánhundruðustu stólræðuna um syndina örgu. Sumt fólk vill þannig pistla. Til er fólk sem vill fá afhenta snoturlega innpakkaða skoðun dagsins til að staðfesta það sem því var kennt í æsku. Og dæmin sanna að til er fólk sem heldur að lífið sé nokkurs konar gettu-betur-keppni þar sem eitt rétt svar er við álitaefnunum. Skrípamyndamálið danska er afar gott dæmi um mál þar sem takast á í manni sjálfum nánast ósættanleg sjónarmið - eins og ég reyndi að sýna fram á með tveimur greinum þar sem komist var að tveimur ólíkum niðurstöðum. Í rauninni var helsti óvinurinn í því máli sjálfur ósveigjanleikinn í báðum herbúðum, þráin eftir "hinu rétta svari"; rasistanna hjá Jótlandspóstinum sem lögðu sig í líma við að erta múslima til að þjóna stereótýpískri mynd af "þessu fólki" og klerkanna sem gengu beint í gildruna með yfirgengilega heimskulegum og pavlovískum viðbrögðum.Og fórnarlömbin voru venjulegt fólkVið lifum á ískyggilegum tímum, þar sem við erum krafin um einfalda afstöðu til flókinna mála. En þegar við reynum að bregðast við tíðindum heimsins þá hljótum við alltaf að vega það og meta hvernig reynir á grundvallarhugsjónir á borð við tjáningarfrelsi og kærleiksboðorð Krists: ég vona að niðurstaðan úr þessum tveimur greinum mínum hafi verið sú að þetta verði að fylgjast að og að okkur beri að amast við því þegar fjölmiðlar eru notaðir til að særa fólk blaðamönnum til skemmtunar eða svölunar annarra kennda, um leið og við hömrum á grundvallarrétti manna til að tjá sig. Bubbamálið: þar var ekki tekist á um rétt blaðamanna til að segja sannleikann um Bubba heldur til að segja ósatt um Bubba - undir rós að vísu, iðandi af pöddum. Þar var tekist á um rétt blaðamanns til að nota blað - opinberan vettvang - til að jafna einhverjar gamlar prívatsakir við nafntogaðan mann, sem engum koma við. Þar var tekist á um það hvort fólk geti haft mannorð og mannhelgi þótt það spili betur á gítar og syngi betur en aðrir menn.Stundum finnst mér eins og ég hafi ekki skoðanir - heldur að skoðanir hafi mig. Þegar hugsað er um dægurmálin og pólitíkina þá er maður óðara kominn ofan í hjólför sem leiða mann á fyrirfram ákveðna áfangastaði þar sem öðrum megin stendur Hannes Hólmsteinn og veifar manni ákafur en á hinum endanum bíður Sverrir Jakobsson réttsýnn á svip. Ég hylli ekki skoðanaleysið - en ég vil biðja fólk um að vara sig á skoðanafestunni. Hún jafngildir nefnilega óbreyttu ástandi. Maður bara spólar.Svona pistlar eiga ekki að fylla huga lesenda af skoðunum - heldur að tæma huga lesenda af klisjum. Svona pistlar eiga að taka til skoðunar það sem ráðamenn ríkjandi viðhorfa segja - til hægri og vinstri, upp og niður, út og suður. Þannig er nú það. Og það heldur nú hann ég. Í þrjú ár hef ég vaknað á sunnudagsmorgnum og skrifað pistilinn, svolítið eins og prestur að skrifa stólræðu dagsins. Þetta er orðið ágætt. Ég þarf að fara að pikka eitthvað annað á tölvuna - ég ætla með Davíð Oddssyni í skoðanabindindi. Ætli við hittumst ekki á O.A.-fundum (Opinionated Anonymus). Ég þakka fyrir mig, starfsfólki Fréttablaðsins og lesendum.
Af hverju er ráðherra Sjálfstæðisflokksins að gjaldfella íslenska iðnnámið? Böðvar Ingi Guðbjartsson Skoðun
Af hverju er ráðherra Sjálfstæðisflokksins að gjaldfella íslenska iðnnámið? Böðvar Ingi Guðbjartsson Skoðun