Stuðningsmenn Óskars Bergssonar, sem lenti í þriðja sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Reykjavík um helgina, létu innsigla öll utankjörfundaratkvæði að talningu lokinni.
Þetta gerðu þeir til öryggis ef farið verður yfir málið í heild sinni í ljósi þess að Óskar komst ekki á blað yfir sex efstu frambjóðendur fyrr en í þriðja upplestri, og náði samt þriðja sæti. Fréttastofan hefur fyrir því heimildir að nánast enginn hafi kosið hann utan kjörfundar, sem hefur vakið upp spurningar stuðningsmanna Óskars, ekki síst í ljósi þess að beiðni Óskars um að mega eiga fulltrúa við utankjörfundaratkvæðagreiðsluna, var hafnað án skýringa, að sögn. Þá hafa þeir ekki fengið skýringu á því að ábyrgðarmaður utankjörfundaratkvæðagreiðslunnar, sem hófst fyrir viku, sagði af sér á fimmtudag og fór að vinna á kosningaskrifstofu Björns Inga Hrafnssonar sem hreppti fyrsta sætið í prófkjörinu.
Óskar vildi í morgun ekkert segja um það hvort hann ætlaði að þiggja þriðja sætið, eða hvort farið yrði nákvæmlega ofan í framkvæmd prófkjörsins í heild, hann ætlaði fyrst að hitta hina frambjóðendurna og kjörstjórnina.
Fréttastofu NFS er kunnugt um að Anna Kristinsdóttir, sem varð í öðru sæti er ekki alls kostar ánægð með framkvæmdina heldur, en hún ætlar ekki að tjá sig um málið fyrr en hún kemur aftur til landsins eftir nokkra daga.