Í færslu á Facebook, undir yfirskriftinni Viðreisn dvelur ekki í draumapólitík, segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í borginni, að einnig verði lagt til að viðræður verði hafnar á ný um að staðið verði við ákvæði samnings síðan 23. október 2013 undirrituðum af þáverandi borgarstjóra og innanríkisráðherra, þar sem segi meðal annars að innanríkisráðuneytið og Isavia hafi forgöngu um að kennslu- og einkaflugi verði fundinn nýr staður í nágrenni borgarinnar.
Markmiðið með tillögunni sé að skapa sátt um áætlunar- , sjúkraflug og landhelgisgæslu næstu tuttugu árin á Reykjavíkurflugvelli og tryggja þá umgjörð sem þarf, en um leið að draga úr mengun, slysahættu og ónæði fyrir íbúa í nágrenni flugvallarins.
Ljóst að völlurinn fari ekkert næstu tuttugu árin
Það sé stefna Viðreisnar að innanlandsflugi verði í framtíðinni fundin annar staður. „Það er hinsvegar ljóst að það verður ekki gert á næstunni miðað við jarðhræringar á Suðurnesjum. Ekki verður byggður flugvöllur í Hvassahrauni í bráð og ekki hefur verið fundið nýtt svæði fyrir innanlandsflug.“

Draga verði þá ályktun að sjúkra- og áætlunarflug muni verða á Reykjavíkurflugvelli næstu tuttugu árin og mikilvægt að tryggja því þá umgjörð sem þarf.
„Við verðum að vera raunhæf og dvelja ekki í einhverri draumapólitík.“
Einkaþoturnar geti verið á Suðurlandi
Með því að færa einkaþotur, þyrluflug ásamt einka og kennsluflugi megi draga úr mengun, slysahættu og ónæði fyrir íbúa í nágrenni eins og hægt er og tryggja þannig meiri sátt um komandi ár. Ljóst sé að mikil óánægja er meðal íbúa í nærumhverfinu með að einkaþotur lendi og hafi aðsetur á Reykjavíkurflugvelli ásamt því að mikið ónæði sé af almennu þyrluflugi og einka- og kennsluflugi.
Viðreisn leggi áherslu á að tryggja umgjörð og sátt fyrir áætlunar-, sjúkraflug og landhelgisgæslu en auðvelt ætti að vera að finna öðru flugi nýjan stað. Dæmi um það gæti verið Keflavíkurflugvöllur, gamli Keflavíkurvöllur eða á Suðurlandi.