Brasilíski ökuþórinn Rubens Barrichello viðurkennir að erfið byrjun hans með liði Honda sé farin að setjast nokkuð á sálina og hafi óneitanlega reynt á sjálfstraust hans sem ökumanns. Barrichello var áður í sex ár hjá Ferrari, en eftir að vera bjartsýnn á gott gengi í vetur hefur hann aðeins náð í tvö stig í fyrstu þremur keppnunum sem búnar eru.
"Ég hef verið spurður mikið út í andlegt ástand mitt, en ég geri mér grein fyrir því að ég á mikla vinnu fyrir höndum. Þetta er samt ekki eins slæmt og það lítur út og ég er viss um að ég næ að rífa mig upp fljótlega," sagði Barrichello.