Lögreglan í Reykjavík tók í gær 83 ökumenn fyrir hraðakstur í borginni. Lögregla var víða við hraðamælingar og nýtti meðal annars myndavélabíl sinn óspart eftir því sem fram kemur á vef hennar.
Tilkynnt var um átján árekstra í gær og segir lögregla ljóst að eignatjón er nokkurt. Þrír tjónvaldar stungu af frá vettvangi. Sem betur fer var hins vegar lítið um slys á fólki en þó þurfti í einu tilviki að flytja fólk á slysadeild. Tveir voru teknir fyrir ölvunarakstur í gær og nótt. Fyrst kona á fimmtugsaldri en síðan karl á sextugsaldri.Lögreglan var við hraðamælingar á nokkrum stöðum í vesturbænum í morgun og þar óku langflestir á leyfilegum hámarkshraða að hennar sögn.