Færeyska olíuleitarfélagið Atlantic Petroleum, sem skráð er á markað í Kauphöllinni, tapaði 39,3 milljónum danskra króna, um 470,5 milljónum íslenskra króna, á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er talsvert meira tap en á sama tíma í fyrra þegar fyrirtækið tapaði jafnvirði 76 milljónum króna. Mestur hluti tapsins kom til á öðrum fjórðungi ársins.
Tapið á öðrum ársfjórðungi nam 35,2 milljónum danskra króna. Á sama tíma fyrir ári nam það hins vegar rétt rúmum fjórum milljónum danskra króna.
Á árshlutauppgjöri Atlantic Petroleum kemur fram að starfsemi fyrirtækisins sé á áætlun á Chestnut- og Ettrick-olíuleitarsvæðunum en reiknað er með að olíuvinnsla hefjist á fyrrnefnda svæðinu seint á þessu ári en á hinu svæðinu á næsta ári.
Eignir félagsins námu 346,7 milljónum danskra króna í júnílok en þær námu 361,4 milljónum króna í lok síðasta árs.
Haft er eftir Wilhelm Petersen, forstjóra Atlantic Petroleum, í tilkynningu frá félaginu, að forsvarsmenn þess séu ánægðir með afkomuna í ljósi aukinnar olíuleitar fyrirtækisins.