Gengi hlutabréfa í SPRON rauk upp um 5,9 prósent í fyrstu viðskiptum dagsins í Kauphöll Íslands. Svipaða sögu var að segja um meirihluta skráðra félaga. Fast á hæla sparisjóðsins var Exista, sem hækkaði um 3,9 prósent. Þá hækkaði Glitnir um 2,8 prósent og Kaupþing um 2,1 prósent. Gengi bréfa í Straumi, Landsbankanum og Bakkavör hækkaði sömuleiðis um rúmt prósentustig í upphafi dags.
Talsverð hreyfing var á hlutabréfamarkaði eftir því sem á leið.
Seðlabanki Íslands tilkynninti um gjaldeyrisskiptasamninga við norræna seðlabanka í morgun sem veitir honum aðgang að 1,5 milljörðum evra. Gengi krónu styrktist um tæp 3,5 prósent í kjölfarið.
Á fyrstu mínútunum lækkaði einungis gengi tveggja félaga. Það voru gengi bréfa í Skiptum, sem féll um fimm prósent, og bréf Eimskipafélagsins, sem lækkaði um 0,48 prósent.
Úrvalsvísitalan hækkaði um 2,36 prósent í byrjun dags og stóð hún í 4.911 stigum.