Breska ungstirnið Amir Khan vann nokkuð öruggan sigur á Ástralanum Gairy St Clair í gær í erfiðasta bardaga sínum til þessa á ferlinum. Hinn 21 árs Kahn vann örugglega á stigum en þurfti að hafa vel fyrir því.
Kahn er samveldismeistari í léttvigt og hann hafði mikla yfirburði framan af bardaganum, en hinn 33 ára Ástrali náði að halda sjó og vildi ekki í gólfið frekar en áður á ferlinum. Allir dómararnir dæmdu Kahn sigur 120-108 á stigum.
Til greina kemur að næsti bardagi Khan fari fram í Bandaríkjunum, en hann þykir mesta efni Breta í hnefaleikunum og hefur ekki tapað bardaga.