Gengi bréfa í SPRON féll um 2,25 prósent við upphaf viðskiptadagsins í Kauphöll Íslands í dag og stendur það í 5,65 krónum á hlut.
Arðleysisdagur er hjá SPRON í dag en á aðalfundi bankans í gær var samþykkt að greiða hluthöfum helming hagnaðar bankans í fyrra í arð og skýrir það lækkunina í dag. Helmingur hagnaðarins nemur rúm 1,6 milljörðum króna og stendur hluthöfum til boða að taka allan arðinn eða hluta hans í formi hlutabréfa í SPRON á genginu 5,62 krónur á hlut.
Á sama tíma hefur gengi bréfa í Glitni hækkað um 0,29 prósent og í Existu um 0,16 prósent.
Úrvalsvísitalan hefur að sama skapi lækkað um 0,36 prósent og stendur vísitalan í 4.937 stigum. Þetta er annar dagurinn í röð sem vísitalan stendur undir 5.000 stigunum.