Gengi hlutabréfa í Century Aluminum, móðurfélagi álversins á Grundartanga, hækkaði um rúm 8,4 prósent í Kauphöllinni í dag. Gengið féll um rúm fimmtán prósent í gær eftir að félagið innleysti framvirka samninga á áli og greiddi fyrir 130 milljarða íslenskra króna. Þá stefnir það á hlutafjárútboð.
Á hæla álfélagsins kemur Atorka en gengi bréfa í félaginu hækkaði um 3,14 prósent í dag.
Þá hækkaði gengi Existu, Kaupþings, Marel og Straums um tæpt prósent en Landsbankinn, Eimskipafélagið, Bakkavör, Össur, Atlantic Petroleum og Alfesca fór upp um tæpt prósent.
Á sama tíma lækkaði gengi bréfa í Teymi um 0,51 prósent og í Glitni um 0,33 prósent.
Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,99 prósent og endaði í 4.281 stigi.