CSKA Moskva og Aston Villa gerðu í kvöld 1-1 jafntefli í fyrri leik liðanna í 32-liða úrslitum UEFA-bikarkeppninnar sem fór fram á Villa Park í Birmingham.
Vagner Love kom CSKA yfir strax á fjórtándu mínútu leiksins með sínu níunda marki í keppninni í vetur. Vagner Love fékk boltann á eigin vallarhelmingi og kláraði dæmið sjálfur með laglegum spretti.
Aston Villa óx ásmegin eftir því sem á leið og átti Craig Gardner skot í slána áður en John Carew jafnaði metin fyrir heimamenn.
Ashley Young átti sendingu inn í teiginn sem Gardner fékk. Hann gaf boltann á Carew sem skoraði með laglegu skoti.
Gabriel Agbonlahor og Carew áttu svo báðir góð færi undir lok leiksins en niðurstaðan jafntefli og útlit fyrir spennandi viðureign í Moskvu eftir tvær vikur.