Íslenski boltinn

„Þetta er eins og eld­gamla tómat­sósan“

Hinrik Wöhler skrifar
Magnús Már, þjálfari Aftureldingar, fagnaði sigri í öðrum heimaleiknum í röð.
Magnús Már, þjálfari Aftureldingar, fagnaði sigri í öðrum heimaleiknum í röð. vísir

Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, stýrði sínum mönnum til sigurs í kvöld í Bestu-deild karla í knattspyrnu. Mosfellingar sigruðu Stjörnuna sannfærandi og svöruðu fyrir tapið á móti Fram í síðustu umferð.

Magnús Már tileinkaði fyrrum sjálfboðaliða félagsins sigurinn.

„Þetta var frábær leikur. Ég ætla að byrja á að tileinka Guðjóni Ármanni Guðjónssyni þennan sigur. Guðjón sem var í meistaraflokksráði hjá okkur lést á dögunum og ég votta fjölskyldu og vinum hans samúð. Þessi sigur er tileinkaður honum,“ sagði Magnús Már.

„Frábær leikur hjá strákunum, það er sjálfboðaliðum eins og Guðjóni að þakka að félagið er á þeim stað sem það er í dag, að spila í Bestu-deildinni. Ég votta mikla virðingu til fjölskyldu og vina,“ bætti þjálfarinn við.

Mosfellingar töpuðu illa á móti Fram í síðustu umferð en allt annað lið kom til leiks í kvöld og voru mun grimmari á öllum sviðum. Magnús er afar bjartsýnn fyrir framhaldinu og líkir sóknarleiknum við tómatsósu.

„Spilamennskan var allt í lagi á móti Fram. Nú vorum við beittir í teigunum og vorum að klára færin betur, þetta er eins og eldgamla tómatsósan. Stundum kemur ekkert út úr henni en svo fer allt að sulla og ég held að það sé nóg í flöskunni fyrir sumarið.“

Það má segja að allir leikmenn liðsins hafi átt góðan leik í liði Aftureldingar, frá öftustu línu til fremsta manns, og því er Magnús sammála.

„Frábær liðsheild í dag. Allir sem byrjuðu og komu inn á áttu frábæran leik. Gríðarlega stoltur af strákunum í dag, hrikalega vel gert hjá þeim.“

Stokke fór beint í byrjunarliðið

Benjamin Stokke, framherjinn stæðilegi, gekk til liðs við Aftureldingu fyrir nokkrum dögum síðan og lék sinn fyrsta leik í kvöld. Magnús Már var sáttur með norska framherjann í kvöld.

„Hann var mjög öflugur. Góður í uppspili og gerði mikið fyrir okkur. Hann er að komast inn í hlutina og verður vaxandi og vonandi enn betri fyrir okkur í næstu leikjum.“

Það voru nokkrir Mosfellingar frá vegna meiðsla en Arnór Gauti Ragnarsson var ekki með Mosfellingum í kvöld og var í borgaralegum klæðum í stúkunni.

Hann varð fyrir hnjaski, Oliver [Sigurjónsson] og Sigurpáll [Melberg Pálsson] voru allir ýmis veikir eða meiddir þannig það var smá hnjask á okkur fyrir leik. Það komu aðrir menn inn í staðinn og stóðu sig vel. Við erum með hörku hóp og liðsheild og ég held að allir þessir leikmenn ættu að vera tilbúnir í næsta leik, ekkert alvarlegt,“ sagði þjálfarinn að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×